Landlæknisembættið íhugar að taka umdeilt svefnlyf af markaði

Talsverð umræða hefur að undanförnu verið um lyfið Flunitrazepam, m.a. á bloggvef mbl.is eftir að einn bloggara vakti athygli á því að lyfið sé í raun sama lyf og Rohypnol og Rópan, sem vitað er að hafa hafa tengst nauðgunarmálum bæði hér á landi og annarstaðar. Landlæknir segir að það komi til greina að afskrá lyfið.

Umræddur bloggari hafði samband við Lyfjastofnun Ríkisins, og hvatti aðra til þess að gera slíkt hið sama, og hefur Lyfjastofnun ákveðið að senda erindi um notkun lyfsins Flunitrazepam til landlæknisembættisins og þar með lyfjanefndar. Þar verður málið skoðað út frá þeirri staðreynd að lyfið sé misnotað til að nauðga konum.

Fram kemur á vef landlæknisembættisins, að fyrirspurn hafi borist til embættisins varðandi svefnlyfið Rohypnol, sem komst í fréttir fyrir nokkrum árum vegna ákveðinnar misnotkunar. Hún fólst í því að lyfið var sett í glös kvenna á skemmtistöðum eða annars staðar, án þess að þær yrðu þess varar, en í þeim tilgangi að nauðga konunum eftir að sljóvgandi áhrif lyfsins væru farin að hafa áhrif.

Þar segir jafnframt að Rohypnol sem slíkt hafi verið afskráð, en lyf með sama virka innihaldsefni sé enn til á markaði, þ.e. Flunitrazepam. Verulega hafi þó dregið úr notkun lyfsins á undanförnum árum.

Matthías Halldórsson landlæknir sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að Flunitrazepam væri gott svefnlyf, en ljóst, að um ákveðna misnotkun hefði verið að ræða og því sé verið að kanna hvort það eigi að afskrá lyfið.

Að sögn landlæknis eru það aðallega eldri borgarar sem fá lyfið, sem er lyfseðils- og eftirlitsskylt.

Frétt um lyfið má sjá á vef landlæknisembættisins.

Upplýsingar um lyfið á doktor.is má sjá hér.

Sjá má upphaf umræðunnar um lyfið á bloggvef mbl.is (n.t.t. þann 15.3.2007) hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert