Danske Bank dregur upp dökka mynd

Eftir Arnór Gísla Ólafsson arnorg@mbl.is
Hvergi í löndum OECD er meiri ofhitnun en í íslenska hagkerfinu. Atvinnuleysið er 1% og launin hækka um 7% og verðbólgan er meiri en 4% þrátt fyrir sterka íslenska krónu. Viðskiptahallinn er að nálgast 20% af vergri landsframleiðslu. Seðlabanki Íslands hefur hækkað stýrivextina umtalsvert að undanförnu til þess að slá á þensluna og þeir eru nú komnir yfir 10%. Sé gengið út frá þessum hagvísum einvörðungu er útlit fyrir að íslenska hagkerfið sé á leið í niðursveiflu í ár og á næsta ári. Verg landsframleiðsla gæti fallið um 5-10% á næstu tveimur árum og líklegt er að verðbólgan geti farið yfir 10% samhliða veikingu íslensku krónunnar.

Þetta er sú dökka mynd sem sérfræðingar í greiningardeild Danske Bank hafa dregið upp af stöðunni í íslensku efnahagslífi undir fyrirsögninni: "Iceland: Geysir Crisis".

Þeir benda einnig á að samfara miklum hagvexti og þenslu hafi bæði skuldir, skuldsett kaup og önnur fjárhagsleg áhætta vaxið gríðarlega, raunar svo mikið að ekki séu önnur dæmi um slíkt. Erlendar skuldir séu nú um 300% og erlendar skammtímaskuldir séu að nálgast 55% af vergri landsframleiðslu.

Með vindinn í fangið

Sérfræðingarnir taka þó fram að íslensku bankarnir séu vel varðir fyrir veikingu krónunnar þar sem erlendar lántökur þeirra og erlend útlán þeirra standist nokkurn veginn á. Hins vegar sé þess að gæta að þar sem fasteignalán heimilanna séu verðtryggð muni veiking krónunnar sem aftur muni leiða til aukinnar verðbólgu veikja fjárhagsstöðu heimilanna; verðtryggð fasteignalán hafi numið um 165% af ráðstöfunartekjum í lok ársins 2004.

Þá benda þeir og á að lánakjör íslensku bankanna á erlendum fjármagnsmörkuðum hafi verið að versna og þar sem umtalsverður hluti af skuldum þeirra muni falla í gjalddaga á næstu 18 mánuðum sé ljóst að þeir séu nú komnir með vindinn í fangið.

Sérfræðingarnir bera saman stöðuna á Íslandi við bankakreppurnar í Taílandi og Tyrklandi og taka fram að á ýmsum sviðum sé staðan betri á Íslandi, m.a. vegna þess að stór hluti erlendu skuldanna sé til kominn vegna kaupa á fyrirtækjum erlendis sem séu með jákvætt fjármagnsstreymi og muni styðja við framsókn íslenskra fyrirtækja og þá um leið íslensku bankanna. Engu að síður telja sérfræðingarnir að umtalsverð hætta sé á að til fjárhagslegrar kreppu geti komið samfara niðursveiflu í íslensku efnahagslífi á árunum 2006 til 2007.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert