Flugmanns leitað

Mynd: Baldur Sveinsson.

Leit stendur enn að flugmanni bandarískrar flugvélar sem fór í sjóinn um 50 mílur vestur af Keflavík laust upp úr klukkan 16 í dag. Fiskibátar eru á leitarsvæðinu og varðskip og björgunarbátar eru á leiðinni. Þyrla Landhelgisgæslunnar var komin á vettvang um 40 mín eftir að neyðarkall barst.

Flugmaðurinn var einn um borð. Hann mun vera bandarískur. Vélin, af gerðinni Cessna 310, tveggja hreyfla, var á leið frá Narsassuaq á Grænlandi til Reykjavíkur þegar drapst á öðrum hreyflinum. Flugmaðurinn kvaðst eiga í erfiðleikum með að flytja eldsneyti á milli tanka og reiknaði því með að fljótlega dræpist á hinum hreyflinum.

Þegar það gerðist var vélin um 60 mílur frá landi í sjö þúsund feta hæð og sýnt þótti að hún færi í hafið. Flugvél frá danska sjóhernum kom á vettvang um 25 mínútum síðar og þyrla Landhelgisgæslunnar skömmu eftir það.

Önnur þyrla frá Landhelgisgæslunni er á leið á leitarsvæðið auk Fokker-vélar gæslunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka