Ekkert lát er á mótmælum á Austurvelli þótt farið sé að nálgast miðnætti. Að sögn blaðamanns mbl.is er mikil stemmning meðal mótmælenda og er talað um það í röðum þeirra að hugsanlega verði vaktin staðin í alla nótt og fram á morgundaginn en þingfundur á Alþingi er boðaður klukkan 13:30 á morgun.
Bál sem logað hefur framan við tengibyggingu Alþingis frá því í á sjöunda tímanum í kvöld, logar enn glatt. Hefur fólk verið iðið við að koma með eldivið á svæðið, svo sem mótatimbur, vörubretti, borðplötur og hjólbarða og einnig glittir í gamalt reiðhjól í bálinu. Þá hafa mótmælendur kastað salernispappír á bálið, sem blossar öðru hvoru upp.
Mótmælendur berja enn bumbur og annað slagverk og hrópa slagorð gegn ríkisstjórn og Alþingi. Fjöldi lögreglumanna er enn við Alþingishúsið og hefur verið kastað í þá ýmsum landbúnaðarvörum og öðru lauslegu. Meðal þess sem kastað hefur verið í Alþingishúsið eru skór.
Reynt hefur verið nokkrum sinnum í kvöld að kveikja í Óslóartrénu, sem enn stendur á Austurvelli. Á 12. tímanum tókst nokkrum ungmennum að klippa á víra, sem halda trénu uppi, og fella það og reyndi fólkið síðan að draga tréð á bálið.