Mótmæli mega ekki snúast upp í andhverfu sína

Lögreglan beitti piparúða gegn mótmælendum við þinghúsið í dag.
Lögreglan beitti piparúða gegn mótmælendum við þinghúsið í dag. mynd/Jóhannes Gunnar Skúlason

„Öll mótmæli í lýðræðisríki eru eðlileg. En þau mega heldur ekki ganga það langt að þau fari að snúast upp í andhverfu sína. Þetta var mjög sérstakur dagur og skrítið að alþingismönnum hafi allt að því verið haldið í herkví inni í þinghúsinu,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra í samtali við mbl.is í kvöld.

Hún segir að stjórnvöld verði að sýna því skilning hverju sé verið að mótmæla. Margir séu eðlilega óöruggir við núverandi aðstæður, t.d. varðandi atvinnu- og efnahagsmál. „Maður sýnir því skilning. En um leið þá gerir maður þá kröfu að þeir sem hafa hátt um lýðræði og kjarna lýðræðisins verði að bera virðingu fyrir stofnunum lýðræðisins. Þar er Alþingi, löggjafarvaldið, algjört lykilatriði,“ segir hún.

Þorgerður Katrín segir að nú sé ekki rétti tíminn til að boða til kosninga, líkt og mótmælendur hafa krafist. „Ríkisstjórnin verður að halda kúrs og standa í lappirnar, en það þýðir ekki að það verði ekki breytingar. Það er eðlileg krafa að það verði einhverjar breytingar og það er eitthvað sem menn hljóta alltaf að líta til,“ segir hún.

Spurð út í það hvort mótmælin séu farin að hafa áhrif segir Þorgerður Katrín: „Persónlega þá tekur maður þetta inn á sig. Og maður skilur reiði fólksins. Ég leyni því ekkert,“ segir Þorgerður Katrín.

Hún segir hins vegar að stjórnvöld verði að halda vinnu sinni áfram. „Við verðum að halda þessu kerfi okkar gangandi. Við verðum að reyna koma okkur enn betur af stað. Við verðum að taka afdrifaríkar ákvarðanir, bæði í utanríkis-, peninga- og efnahagsmálum þjóðarinnar.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálráðherra.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálráðherra.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert