Á methraða inn í ESB?

Norrænu utanríkisráðherrarnir á blaðamannafundi í Stokkhólmi í dag.
Norrænu utanríkisráðherrarnir á blaðamannafundi í Stokkhólmi í dag. mynd/norden.org

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði í Stokkhólmi í dag að hann vonaðist til þess að álitsgerð framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um aðildarumsókn Íslendinga muni liggja fyrir þegar í desember. Alexander Stubb, utanríkisráðherra Finnlands, sagði að ef það yrði niðurstaðan væri það met. 

„Ég hef fengið mörg góð ráð frá norrænum kollegum mínum," sagði Össur við sænsku fréttastofuna TT eftir fund norrænu utanríkisráðherra í dag. „Það hefur verið markmiðið, meðan Svíar fara með formennsku í Evrópusambandinu, að Ísland verði samþykkt sem umsóknarland, hugsanlega strax í desember eða þá í mars á næsta ári.

Össur benti á að Ísland hefði þegar svarað þúsundum spurninga, sem framkvæmdastjórn ESB hefði lagt fyrir þótt svarfresturinn renni ekki út fyrr en um miðjan nóvember.

„Þótt við séum lítið land þá höfum við einsett okkur að svara hratt. Boltinn er þess vegna núna á vallarhelmingi framkvæmdastjórnarinnar," sagði Össur.  

Alexander Stubb sagði við TT, að hann teldi að Ísland hefði sett Evrópumet í að svara spurningum tengdum aðildarumsókninni. „Ef framkvæmdastjórnin sendir frá sér jákvæða álitsgerð þegar í desember þá væri það einnig met," sagði hann. 

Össur sagði, að norrænu ESB-ríkin hefðu boðið Íslandi aðstoð við að afla sér upplýsinga um Evrópusambandið. Þannig er hópur íslenskra embættismanna nú í kynnisferð í Svíþjóð og Danir hafa, að sögn Össurar, lofað að fræða Íslendinga um hvernig best sé að halda á samningaviðræðum um sjávarútvegsmál, sem verði mikilvægustu málefnin í væntanlegum aðildarviðræðum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert