2,2 milljónir á hvern Íslending en 9 þúsund á Breta og Hollendinga

Ann Pettifor.
Ann Pettifor.

Ef Íslendingum yrði gert að standa að fullu undir Icesave samsvarar það 12.000 evrum á hvern Íslending (tæpum 2,2 milljónum króna). Kostnaðurinn yrði hins vegar aðeins 50 evrur (9 þúsund krónur) á hvern skattgreiðanda í Hollandi og Bretlandi. Þetta kemur fram í bréfi Ann Pettifor og Jeremy Smith hjá fyrirtækinu Advocacy International  í Bretlandi sem birt er í Financial Times í gær.

Ann Pettifor er virtur hagrfræðingur í Bretlandi og hefur m.a. látið mikið til sín taka við niðurfellingu skulda í þróunarríkjum. Í bréfi Pettifor og Smith segir að ríkisstjórnir Bretlands og Hollands ættu að fagna ákvörðun forseta Íslands um að staðfesta ekki Icesave-lögin og nota tækifærið til að draga til baka kröfur um fullar endurgreiðslur þessarar fámennu þjóðar.

Þau segja það ósanngjarnt að þröngva Íslendingum til að bera allar byrðarnar af endurgreiðslunum. Bretar og Hollendingar eigi að hætta að beita þjóðina efnahagslegum þrýstingi og fallast á sameiginlega ábyrgð þjóðanna á hruninu.

Einn lesandi ritstjórnargreinar blaðsins Independent, sem birtist í gær, tekur í sama streng. Hann segir að Icesave-skuld Íslands sé 16 þúsund dalir á hvert mannsbarn, jafnvirði 2,2 milljóna króna. Eftir fyrri heimsstyrjöld hafi Þjóðverjum verið gert að greiða 269 milljarðar gullmarka í stríðsskaðabætur en sú upphæð var síðar lækkuð í 132 milljarða marka og jafnframt gert ráð fyrir, að aðeins um 50 milljarðar yrðu greiddar. Lesandinn segir, að 132 milljarðar gullmarka svari til 200 milljarða dala á núverandi gengi. Þýska þjóðin hafi talið 60 milljónir manna og því hafi skaðabæturnar numið 3300 dölum á mann, jafnvirði 417 þúsunda króna. Þjóðverjar séu nú fyrst að ljúka greiðslu skuldarinnar, 90 árum eftir að fyrri heimsstyrjöld lauk.

„Niðurstaða: Íslenska þjóðin þarf að greiða fimm sinnum meira fyrir að fremja þann glæp að búa í landi með stórt eftirlitslaust fjármálakerfi en Þýskalandi var gert að greiða fyrir að hefja stríð þar sem fimm milljónir manna létu lífið og stór hluti af Belgíu og Frakklandi var lagður í rúst," segir lesandinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert