Styttist í lok rannsóknar

Rannsókn á stunguárás sem varð í Súðavík er enn í …
Rannsókn á stunguárás sem varð í Súðavík er enn í gangi. mbl.is/Eggert

„Við reynum að koma málinu til héraðssaksóknara eins fljótt og hægt er,“ segir Helgi Jensson, lögreglustjóri á Vestfjörðum, um stunguárás sem varð í Súðavík í júní.

Gæsluvarðhald yfir manninum sem grunaður er um að hafa stungið annan mann í heimahúsi var framlengt fyrir tæpum tveimur vikum til 17. júlí vegna rannsóknarhagsmuna, en rannsókn málsins er enn í gangi.

„Við erum langt komnir með hana og vonumst til að eftir ekkert mjög marga daga getum við sent málið til héraðssaksóknara sem fer með ákæruvaldið í svona málum,“ segir Helgi í samtali við mbl.is um rannsókn málsins.

Mikilvæg gögn berast enn

Útskýrir hann að gögn sem varða málið séu enn að berast og að þau þurfi að taka með í reikninginn.

„Það þarf að púsla þeim inn í málið og svo bara klára það endanlega um leið og það er búið,“ segir Helgi og bætir við að þar sem maðurinn situr í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar málsins sé reynt að ljúka henni sem fyrst og koma málinu til héraðssaksóknara.

„Þannig að það er farið að styttast í það,“ segir hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert