Stærstur hluti línuívilnunar á land á Vestfjörðum

Smábátar í höfninni á Flateyri.
Smábátar í höfninni á Flateyri. mbl.is/Ómar

Meira en helmingur þess afla sem varð til vegna línuívilnunar á síðasta fisveiðiári kom á land á Vestfjörðum eða rúm 61%. Af einstökum höfnum á landinu kom mest á land í Bolungarvík.

Sem kunnugt er tók svokölluð línuívilnun við stjórn fiskveiða gildi 1. febrúar síðastliðinn. Í henni felst að hægt er að landa ýsu- og steinbítsafla sem að hluta er ekki reiknaður til aflamarks. Nemur línuívilnunin í þessum tegundum 16% af lönduðum afla. Ívilnunin gildir aðeins á þeim bátum sem róa með línu sem beitt er í landi.

Til loka síðasta fiskveiðiárs, 31. ágúst, nam línuívilnun samtals rúmum 473 tonnum í ýsu og rúmum 416 tonnum í steinbít. Aflinn kom á land í 39 höfnum á landinu. Stærstur hluti aflans, eða tæp 547 tonn, kom á land í höfnum á Vestfjörðum, þar af 239 tonn af ýsu og 308 tonn af steinbít.

Af einstökum höfnum má nefna að mestur afli sem varð til vegna línuívilnunar kom á land í Bolungarvík eða tæp 162 tonn en næsthæsta höfn landsins var Suðureyrarhöfn með tæpt 141 tonn. Af öðrum höfnum á Vestfjörðum má nefna að á Flateyri komu á land 84 tonn og á Þingeyri tæp 32 tonn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert