„Ekkert gefur tilefni til afskipta“

Illugi Gunnarsson.
Illugi Gunnarsson. mbl.is

„Að mínu viti hefur ekkert það komið fram í þessu máli sem gefur tilefni til afskipta af hálfu íslenskra stjórnvalda“ sagði Illugi Gunnarsson, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, þegar hann var inntur eftir því hvort íslensk yfirvöld teldu ástæðu til að leita skýringa á handtöku Örnu Aspar Magnúsardóttur á flugvellinum í Tel Aviv sl. sunnudag og yfirheyrslum ísraelsku landamæralögreglunnar, en Örnu Ösp var sem kunnugt er haldið í 30 klukkustundir.

Segir Illugi það ákvörðunarrétt hvers ríki fyrir sig hverjum það hleypir inn í landið.

„Við getum auðvitað ekki haft áhrif á það eða gert athugasemdir við það hvaða stefnu Ísraelsmenn hafa um það hverjum þeir hleypa inn í landið. Ekkert frekar heldur en við getum gert við neina aðra þjóð. Við myndum sjálfir ekki líða það ef aðrar þjóðir gerðu athugasemd við það hvernig við högum okkar stefnu í þessum málum,“ segir Illugi og tekur fram að ekkert bendi til þess að Arna Ösp hafi verið handtekin fyrir það að vera Íslendingur, enda hafi hópur Íslendinga á leið í æskulýðsbúðir í Nablus ekki lent í neinum vandræðum með að komast inn í landið.

Segir hann mál horfa allt öðruvísi við ef um mismunun á grundvelli þjóðernis væri að ræða. „Án þess að ég hafi getað kynnt mér það í þaula þá gæti maður ímyndað sér að það sé líklegri skýring, eins og Sveinn Rúnar Hauksson [formaður félagsins Ísland-Palestína], benti á í fjölmiðlum, að Arna Ösp hefði starfað með liðsmönnum samtaka sem eru á svörtum lista hjá Ísraelsmönnum og að það skýri handtöku hennar,“ segir Illugi, en tekur þó fram að berist til ráðuneytisins athugasemd frá íslenskum ríkisborgara þá verði það eðli málsins samkvæmt skoðað.

Haft hefur verið eftir Örnu Ösp að hún ætli sér að hafa samband við utanríkisráðuneytið þegar heim kemur, en Arna Ösp dvelur nú á Englandi þar sem hún hyggst hvíla sig um stund í hópi vina áður en hún heldur heim til Íslands. Arna Ösp vildi ekki tjá sig við Morgunblaðið í gær þegar leitað var eftir því.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert