Samið um byggingu hjúkrunarheimilis á Lýsislóð

Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri Seltjarnarness, Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra og Steinunn Valdís …
Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri Seltjarnarness, Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra og Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarstjóri, handsala samkomulagið.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, borgarstjórinn í Reykjavík og bæjarstjórinn í Seltjarnarneskaupstað undirrituðu í dag samkomulag um að byggja sameiginlega hjúkrunarheimili á svokallaðri Lýsislóð, en lóðin markast af Eiðsgranda og Grandavegi.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið greiðir 70% kostnaðar við að reisa hjúkrunarheimilið, Reykjavíkurborg greiðir 20% og Seltjarnarneskaupstaður greiðir 10% kostnaðarins. Hjúkrunarheimilið verður í eigu aðilanna þriggja í sömu hlutföllum. Það er Seltjarnaneskaupstaður sem leggur til lóðina í þessu skyni samkvæmt drögum að deiliskipulagi sem fyrir liggur.

Fram kemur í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu, Reykjavíkurborg og Seltjarnarneskaupstað, að hugmyndin að byggingu hjúkrunarheimils á Lýsislóðinni hafi komist á dagskrá í árslok 2003, þegar Seltjarnarnesbær óskaði formlega eftir samstarfi við Reykjavíkurborg um uppbygginguna. Sveitarfélögin hafi átt í nánu samstarfi við Íslenska aðalverktaka, sem eru lóðarhafi á reitnum, og ráðuneytið um skipulag og aðra tilhögun uppbyggingarinnar. Reykjavíkurborg hafi keypt nærliggjandi eign til að liðka fyrir uppbyggingaráfomunum og Seltjarnarnesbær hafi gengið frá samningi við ÍAV um lóð undir hjúkrunarheimilið.

Samkvæmt vinnuáætlun heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins um framkvæmdir á árunum 2006 til 2012 er miðað við að byrjað verði að byggja heimilið í byrjun árs 2008 og taki ekki lengri tíma en 18-24 mánuði þannig að það megi taka í notkun eigi síðar en um áramót 2009/2010.

Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður við hjúkrunarheimilið verði 12 til 1400 milljónir króna og er þá miðað við meðalsstofnkostnað hjúkrunarrýmis, og að rýmin verði allt 90 talsins. Meðaltalskostnaður við rekstur hvers hjúkrunarrýmis er um 5,5 milljónir krónur á ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert