Samfylking og Sjálfstæðisflokkur bæta við sig fylgi

mbl.is/Kristinn

Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn bæta við sig fylgi frá því í síðustu viku samkvæmt könnun, sem Capacent Gallup hefur gert fyrir Morgunblaðið og Ríkisútvarpið. Fylgi Framsóknarflokks dalar hins vegar. Um er að ræða niðurstöður fyrstu raðkönnunarinnar, sem birtar verða daglega í þessari lokaviku fyrir alþingiskosningarnar á laugardag.

Samkvæmt könnuninni mælist fylgi Sjálfstæðisflokksins 41,9% en var 40,2% í síðustu viku. Flokkurinn fær 27 þingmenn miðað við þessa niðurstöðu, bætir við sig fimm mönnum. Fylgi Samfylkingar mælist 25,1% en var 23,5% í síðustu viku. Flokkurinn fær 16 þingmenn, missir 4. VG fær 17,5% nú og 11 þingmenn, bætir við sig sex en fylgi flokksins er óbreytt frá síðustu viku. Fylgi Framsóknarflokksins mælist nú 7,6% en var 10% í síðustu viku. Samkvæmt þessu fengi flokkurinn 5 þingmenn, tapar 7 þingsætum. Fylgi Frjálslynda flokksins mælist 6% en var 5,5% í síðustu viku; þingmennirnir verða 4. Fylgi Íslandshreyfingarinnar mælist nú 2% en var 3,2% í síðustu viku.

Könnunin var gerð dagana 5. og 6. maí og var úrtakið tilviljunarúrtak úr þjóðskrá, 950 manns 18 ára og eldri. Nettósvarhlutfall var 62%. 80,9% nefndu flokk, 9,1% neituðu að svara 6,2% voru óákveðin og 3,8% sögðust ætla að skila auðu.

Fylgistölur eru reiknaðar út frá svörum við þremur spurningum: „Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk eða lista myndir þú kjósa?“ Þeir sem voru óákveðnir voru spurðir: „En hvaða flokkur eða listi yrði líklegast fyrir valinu?“ Þeir sem enn voru óákveðnir voru spurðir: „Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert