Ók vísvitandi of hægt

Lögreglan þarf oft að fást við ökumenn, sem aka of hratt á vegum landsins og valda þannig hættu en ökumenn geta einnig verið hættulegir í umferðinni aki þeir of hægt. Lögregla á Suðurnesjum hafði afskipti af einum slíkum í gærkvöldi.

Rétt fyrir miðnætti var ökumaður bifreiðar stöðvaður þar sem hann ók norður Hafnargötu í Reykjanesbæ á mjög litlum hraða og segir lögregla, að ökumaðurinn hafi með því vísvitandi tafið umferð. Löng röð myndaðist aftan við bifreiðina og var lögreglubifreiðin í þeim hópi.

Lögregla segir, að ökumaðurinn verði kærður fyrir atvikið. Hámarksraðinn er 50 km/klst í götunni en ökumaðurinn ók á 5-10 km/klst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert