Tónleikasprengjan

Eftir Helga Snæ Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is

CeBIT 2006 upplýsinga- og fjarskiptatæknisýningin stóð yfir í Hannover 9.-15. mars en hún er sú stærsta og mikilvægasta sinnar tegundar í heiminum. Tilgangur sýningarinnar er að sýna allt litrófið í þessum iðnaði, allt frá farsímatækni að ísskápum sem búið geta til innkaupalista.

Þessi öryggisvörður virðist ekki finna fyrir aukinni breidd í lífi sínu þrátt fyrir að slagorðið slái því fram.
Reuters
Stór hluti íbúa hins þróaða heims fer á Netið á hverjum dagi, fær tölvupóst, á farsíma og stafræna myndavél og nýtir sér DVD-tækni eða stafrænt sjónvarp. Því eru fyrirtækin nú að bregðast við þörf fólks að jafnmiklu leyti og þau vekja hana. Skilin milli vinnu og heimilis, starfs og afþreyingar, verða sífellt minni. Svo virðist sem hin góðkunnu tæki farsími, fartölva, sjónvarp, myndavél og mynddiskaspilarar séu að renna saman að miklu leyti og við blasir að sífellt færri tæki framkvæmi fleiri aðgerðir. Sjónvörp stækka og myndgæði aukast; símar, fartölvur og stafrænir spilastokkar minnka en geymsluplássið og hraðinn eykst. Stærðin, hraðinn og upplausnin skipta máli. Tíminn á þó alltaf síðasta orðið hvað varðar þörfina fyrir nýjustu græjurnar og tæknina.

Sýningarstúlkur við bás ATI skjákortaframleiðandans.
AP
Leiðandi fyrirtæki á upplýsinga-, afþreyingar- og fjarskiptatæknisviði, m.a. AMD, debitel, EMC, Intel, LG, Medion, Sony, IBM, Microsoft, Nokia og Samsung, voru áberandi á sýningunni í ár og stærstan hluta rýmisins tóku fyrirtæki frá Þýskalandi, Bretlandi og Bandaríkjunum. Skipuleggjendur CeBIT reyndu að þessu sinni að höfða enn frekar til minni og miðlungsstórra fyrirtækja en áður og gátu þau sótt sér ráðgjöf og upplýsingar frá stærri og reyndari aðilum. Til að gefa einhverja hugmynd um stærð og umfang sýningarinnar má nefna að 60 þúsund sérfræðingar voru á svæðinu til upplýsingagjafar, sýnendur voru 6.300 frá 71 landi, hundruð ræðumanna létu í sér heyra á ráðstefnum og fyrirlestrum. Talið er að ríflega hálf milljón manna hafi sótt sýninguna.

Yfirlitsmynd af hluta sýningarsvæðisins.
AP
Útsendarar CNN og BBC fréttastofanna virðast sammála um að hin smáa Origami fartölva hafi vakið mestan áhuga gesta við opnun sýningarinnar enda búið að mynda spennu með því að opna sérstaka vefsíðu, svokallaða „teaser“-síðu sem vekja á forvitni áhugamanna. Origami er samvinnuverkefni Samsung, Microsoft, Founder og Asus fyrirtækjanna og er á stærð við hefðbundna bók. Einnig þótti farsími Samsung með innbyggðri 10 megapixla myndavél allmerkilegur og annar sími Samsung með 8 GB geymsluminni. Flatskjáir skipuðu veigamikið hlutverk og þá ekki síst vegna heimsmeistaramótsins í knattspyrnu sem haldið verður í Þýskalandi í sumar. Eflaust myndi margur íslenskur knattspyrnuáhugamaðurinn vilja eiga 102 tommu háupplausnarskjá, HDTV, sem er til sýnis á CeBIT og ef menn vilja taka leikina upp þá er næsta heimilisnýjungin DVD-upptökutæki með hágæðaupplausn (HD DVD). Fyrirtækin Toshiba, Microsoft og Nec veðja á þá tækni en á móti kemur Blu-Ray mynddiskakerfi Sony, Panasonic og Sharp. Hvor tæknin mun sigra heiminn er óljóst en menn spá álíka stríði og varð á 8. áratugnum milli Betamax og VHS á myndbandamarkaðinum.

Þýska fyrirtækið Metro sýndi á CeBIT nýja tækni sem útrýmt gæti strikamerkjunum góðkunnu, örlítið loftnet á stærð við hrísgrjón sem sett er á vöruna og gerir skönnun á vörum óþarfa. Slík tækni ætti að minnka biðraðir í stórmörkuðum, ef hún kemst í gagnið. Sama fyrirtæki sýndi ísskáp sem býr til innkaupalista og þvottavél sem lætur mann vita ef rauður sokkur er innan um hvíta þvottinn, sem ætti þá helst að koma karlmönnum til bjargar og forða þeim frá hinum alræmda, bleika þvotti. Af nógu er að taka af sýningargripum CeBIT og er það helsta reifað hér til hliðar, en stuðst var við úttektir fjölmiðla á við BBC, Washington Post, AFP fréttastofunnar og tæknisíðunnar CNet ásamt heimasíðu sýningarinnar sjálfrar.


• CNet tæknivefurinn
• Sony Ericsson á CeBIT
• Þýskar CeBIT fréttir
• Samsung á CeBIT
• Nokia á CeBIT
• Vefsíða sýningarinnar
• Umfjöllun Washington Post
• Umfjöllun BBC