Tónleikasprengjan

Sýningarstúlka horfir á 103 tommu Panasonic HDTV plasmaskjá.
Reuters
Íslendingar eru miklir áhugamenn um flatskjái og plasmasjónvörp, eins og jólaverslunin 2005 leiddi í ljós og bíða því væntanlega spenntir eftir frekari tækniþróun á sviði sjónvarps- og DVD-tækni. Á sjónvarpsmarkaði er það greinilegt að stærðin skiptir málin og ekki síður þykktin, þar sem sjónvörp eru nú orðin flöt, stór og þunn. Fyrir þá sem vilja upplifa stofuna eins og bíósal af minni gerð má benda á 102 tommu skjá Samsung og enn frekar 103 tommu skjá Panasonic. Slíkir skjáir kepptust um athygli gesta á CeBIT, svokallaðir HDTV flatskjáir (High Definition TV). Fyrir þá sem ekki hafa efni á slíkum lúxus má nefna iPod spilastokkinn sem hægt er að horfa á hreyfimyndir í og stækka skjáinn með stækkunargleri sem fylgir með hleðslutæki. Erfitt gæti þó reynst að búa til slíkt stækkunargler fyrir hefðbundið heimilissjónvarp og myndi sjálfsagt ekki svara kostnaði. Börnin urðu ekki útundan á sýningunni og mátti sjá LCD-skjái í ýmsum gervum ætlaða barnaherbergjum. Voru þeir felldir inn í tuskudýr af ýmsum dýrategundum og með áklæðum yfir skjám sem má þvo ef skítugar hendur komast í þá. Af öðrum sniðugum sjónvarpstengdum lausnum má nefna þráðlaus svæði þar sem hægt verður að sækja sjónvarpsefni með niðurhali í fartölvu og borga fyrir það með smámynt í sjálfsala.

Mynddiskastríð í uppsiglingu

Mikil barátta er nú á afþreyingarsviðinu hvað varðar mynddiska með hágæðaupplausn, HD DVD og Blu-ray. Fyrrnefnda tæknina þekkja nú flestir en HD viðbótin þýðir „high definition“ eða hágæðaupplausn. Slíkir diskar fjór- eða fimmfalda myndgæði kvikmyndarinnar eða hvers þess efnis sem á disknum er. Efnið er því margfalt stærra í tölvubitum talið, hleypur á tugum GB. Af þeim fyrirtækjum sem veðja á HD DVD eru Toshiba, Microsoft og NEC stærst. Hin gerðin, Blu-ray, sem Sony, Panasonic og Sharp veðja á, dregur nafn sitt af því að annars konar geisli nemur upplýsingarnar á þeim diskum en DVD. Blu-ray diskarnir voru hannaðir með það fyrir augum að hægt væri að taka upp á þá efni og taka yfir það aftur, líkt og um myndbandsspólu væri að ræða, og spila þá að sjálfsögðu. Myndgæðin eru jafngóð og sumir segja betri en í HD DVD og geymsluplássið gríðarlegt, um fimmfalt það sem gerist á hefðbundnum DVD diski.

Blu-ray diskar sem Panasonic mun hefja sölu á í Evrópu í vor.
Reuters
Blu-ray diskarnir eru ýmist með einni 25GB upptökuhlið eða tveggja hliða og með tvöföldu geymslurými þar af leiðandi, 50 GB. Þetta mikla pláss auk mikils fjölda codec-skráa (viðbætur sem ýmist bæta myndgæði, þjappa skrár eða vernda skrár fyrir stuldi) auka gæði myndefnisins gríðarlega. Geislinn er blá-fjólublár og þaðan er nafnið dregið en geislinn er rauður sem les DVD. Þau fyrirtæki sem veðja á blágeislann segja þá tækni bjóða upp á meira upplýsingarými á diskunum en stuðningsmenn HD DVD segja sína tækni ódýrari. Fyrstu Blu-ray tækin verða allt að þrefalt dýrari en HD DVD tækin. Fyrirtækjunum, sem keppast munu um þennan markað, hefur ekki tekist að ná sátt um leið sem gera myndi neytendum kleift að nota sama tækið fyrir þessar tvær gerðir diska og því stefnir í stríð, eins og áður sagði, sambærilegt því sem VHS og Betamax stóðu í á 8. áratugnum. Betamax tapaði þeirri orrustu. Viðbrögð tölvugeirans skipta höfuðmáli í mynddiskastríðinu þar sem DVD-diskasala tók fyrst alvöru kipp þegar slíkir spilarar urðu að staðalbúnaði heimilis- og fartölva.

Til baka á upphafssíðu