Ragnar Karlsson, sérfræðingur hjá Hagstofu Íslands, sagði í október 2004 að ekki væri hægt að sjá á tölum Hagstofunnar að niðurhal og ólögleg dreifing á höfundarvörðu efni hefði augljós áhrif á sölu hér á landi. Seinustu fimm ár á undan hafi útleiga á myndböndum heldur minnkað og aðsókn að kvikmyndahúsum verið minni 2003 en 2002. Færri erlendir geisladiskar seldust 2004 en fyrir fimm árum en á hinn bóginn hefði sala á innlendum geisladiskum stóraukist og hið sama að segja um sölu á DVD-diskum en hún færist sífellt í aukana.




Rétthafar myndefnis og tónlistar halda því þó fram að þeir verði af hundruðum milljóna vegna ólöglegs niðurhals og dreifingar á netinu og sagði Ragnar erfitt að lesa nokkuð slíkt út úr þeim tölum sem Hagstofan byggi yfir. Niðurhal í stórum stíl var þá fremur nýlegt fyrirbæri, of snemmt að segja til um áhrifin af því og erfitt að fullyrða nokkuð um ástæður fyrir minni aðsókn að kvikmyndahúsum. Hún sveiflaðist til milli ára og sagði Ragnar nokkrar ofurvinsælar myndir geta haft mikil áhrif á aðsóknartölur. Í rauninni ætti það sama við um aðsókn að leikhúsum, hún sé meiri þegar vinsæl leikrit er á fjölunum en minni þegar fá slík eru í boði. Munurinn í aðsókn getur hlaupið á tugum þúsunda og sveiflna í aðsókn gætir meira á litlum mörkuðum líkt og á Íslandi. Með öðrum orðum getur verið framboðinu sjálfu um að kenna, að neytendum þyki ekki nógu spennandi efni í boði og leiti annað. Kaupi sér t.d. DVD-mynddiska. Sala á slíkum diskum þykir líkleg skýring á minnkandi útleigu myndbanda og eru nú meira að segja til slíkir diskar í matvöruverslunum sem eyðast tveimur dögum eftir spilun, þ.e. innihald þeirra. Því þarf minnkandi útleiga alls ekki að tengjast niðurhali af netinu. Skemmst er frá því að segja að sala á DVD-diskum rauk upp um seinustu jól og verð á þeim hefur einnig lækkað almennt séð sem hlýtur að hafa áhrif.

Ragnar sagði að í raun væru mjög skiptar skoðanir á því hver áhrifin séu á sölu á kvikmyndum og tónlist. Því hafi m.a. verið haldið fram að dreifing á netinu valdi því að auðveldara sé fyrir byrjendur í tónlistarbransanum að koma sér á framfæri. Sala á erlendri tónlist minnkaði árið 2000 en jókst svo aftur 2002 og 2003. Ragnar telur að hugsanlega hafi kaup um Netið þá aukist en einnig geti verið að aukin sala á DVD-diskum hafi orðið til þess að draga úr kaupum á tónlist. Allt ber þetta að hafa í huga áður en menn kenna niðurhali einu um minnkandi sölu á geisladiskum með erlendri tónlist, minnkandi útláni myndbandaleiga eða minnkandi aðsókn að kvikmyndahúsum.

Hvað varðar tvennt það síðastnefnda má benda á sprengingu í sölu á flatskjáa sjónvörpum og að sífellt fleiri kaupa sér s.k. heimabíó. Myndgæði aukast sífellt í sjónvörpum og hljómgæði einnig auk þess sem sífellt meira úrval er af DVD-diskum og einnig hægt að kaupa þá á netinu. Ekki er hægt að útiloka að það hafi valdið samdrætti hjá myndbandaleigum og kvikmyndahúsum og er afleiðingin sú að hver og einn metur það með sínum hætti og það er einmitt það sem gerist þegar hagsmunaaðilar deila.

Til baka á upphafssíðu