Eftir Helga Snæ Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is

Það er ólöglegt að veita aðgang að höfundarvörðu efni án leyfis rétthafa á netinu, samkvæmt breytingum á íslenskum höfundalögum sem tóku gildi í febrúar síðastliðnum. Um það er ekki deilt en þó er deilt um það hvort niðurhal á slíkum höfundarréttarvörðum skrám sé leyfilegt. Blaðamaður leitaði til tveggja lögmanna sem báðir starfa fyrir hagsmunasamtök höfunda slíks efnis og voru þeir ekki sammála nema að því leyti að s.k. upphal sé brot á lögum. Með upphali er átt við að sett er efni á netið, þ.e. tónlist, kvikmyndir, forrit og annað hugverk, og gert öðrum aðgengilegt. Niðurhal er að sækja sér efni á netið.

Málið flækist þó þegar litið er til þess að þeir sem skiptast á skrám geta halað niður án þess að hala upp, geta stillt forrit með þeim hætti. Einnig greinir menn á um hversu augljóst sé að efnið sé illa fengið og eru tilsvörin á þá leið að „það sjái hver maður“. Þegar notandi slær inn leitarorð, t.d. „rap“, fær hann ógrynni skráa/laga og er þá oft illgreinanlegt hvað er með leyfi höfundar og hvað ekki. Menn geta þó sagt sér það sjálfir að ef lagið er með vinsælli rapp-stjörnu, t.d. Eminem, þá er það efni varið höfundarrétti. Annað efni getur verið á netinu með vilja höfundar og í kynningarskyni. Í rannsóknum vegna brota á höfundalögum verður því að ganga úr skugga um þetta og getur það verið gríðarleg vinna þar sem um milljónir skráa getur verið að ræða.

Ljóst er að tugmilljónir manna í heiminum stunda niðurhal á tónlist, kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og forritum og því virðist barátta útgáfufyrirtækja, t.d. Alþjóðasamtaka hljómplötuútgefenda, eins og vonlaust sund upp straumharða á og meira í líki viðvarana í von um að menn breyti rétt. Þó hafa þúsundir kæra verið lagðar fram og hundruð manna sektuð. Engar haldbærar tölur eru til yfir niðurhal Íslendinga eða hvort efnið sé löglegt eða ólöglegt en ljóst má vera að þúsundir og sennilega tugþúsundir hala niður efni reglulega, ef miðað er við fjölda landsmanna og fjölda ungs fólks, sem eru líklegustu niðurhalararnir. Þá greinir menn einnig á um hvort niðurhal hafi áhrif á sölu varnings en IFPI, alþjóðasamtök hljómplötuútgefenda, hafa gert kannanir og safnað saman könnunum varðandi það.

Einföld skýringarmynd af Bittorrent skráarskiptum
Samkvæmt Evrópukönnun samtakanna í fyrra mun um þriðjungur niðurhalara kaupa færri hljómdiska en áður, en 25% þeirra sem keypt hafa tónlist á netinu hafa minnkað kaup á tónlist út úr búð. Einn af hverjum fimm kaupendum tónlistar á netinu hleður auk þess niður efni sem er frítt. Könnunin náði til tæplega 4.000 íbúa í fimm Evrópulöndum. Þá segir könnun frá 2004 í Bretlandi að aðeins 10% þeirra sem hala niður tónlist kaupi sér tónlist úr búð. Sambærileg könnun hefur ekki verið unnin hér og því málin meira á giskanastigi. Framkvæmdastjóri SFH (Sambands flytjenda og hljómplötuframleiðenda), Gunnar Guðmundsson, segir klárt mál að niðurhal komi niður á sölu á tónlist hér á landi, en það er þó ekki hægt að sanna. Sala á erlendri og innlendri tónlist milli áranna 2004 og 2005 er mjög svipuð, að sögn Gunnars. Þó fleiri gullplötur hafi verið í fyrra þýði það ekki betri heildarsölu. Hann segir upphal alltaf hafa verið ólöglegt og niðurhalið sé það nú líka eftir lagabreytinguna. Í lögum standi að bannað sé að fara í kringum afritunarvörn og segir Gunnar koma fram í lagafrumvarpinu að bannað sé að afrita ólöglegt eintak. Hann segir þó hægt að komast í kringum þetta með því að deila ekki skránni en hins vegar kveði höfundalög frá 1977 á um að eintakagerð verði að eiga sér stað af löglegu eintaki. Fræðilega ætti því að vera hægt að sækja alla niðurhalara til saka, sem sækir sér höfundaréttarvarið efni, en í reynd sé það ómögulegt vegna fjölda þeirra. Finna verði lausn á málinu sem allir aðilar geti sætt sig við. Fái listamenn ekki greitt fyrir verk sín verði engin sköpun. Kynna verði hvað sé rétt og rangt og finna svo löglegu leiðina.

Eiríkur Tómasson lögfræðingur segist túlka lögin þannig að löglegt sé að hala niður efni af netinu til einkanota, þ.e. innan heimilishalds, en klárlega ólöglegt að veita aðgang eða „hala upp“ höfundarréttarvörðu efni án heimildar. Vernda verði höfundarrétt í heiminum, hann skipti höfuðmáli því ef svo væri ekki myndu þjóðartekjur dragast stórkostlega saman. Mikil og vaxandi verðmætasköpun sé í hugverkum og hagvöxtur í heiminum verði neikvæður ef þau njóti ekki verndar. Eiríkur telur langflesta landsmenn á þeirri skoðun að höfundar skuli njóta verndar. Spurningin sé hvaða reglur eigi að gilda um niðurhal og upphal. Lausnin í baráttu hagsmunaaðila höfunda og netverja, að hans mati, felist í því að gera efnið aðgengilegt öllum gegn hóflegu gjaldi. Í því felist öryggi þar sem ekki sé hætta á að vírusar eða annað óvelkomið efni fari í tölvur manna.

Fjöldi manna var ákærður í Bandaríkjunum fyrir ólöglega dreifingu á netinu á seinustu Stjörnustríðsmyndinni.
Önnur hlið á málinu sé hagnaður símafyrirtækja af netnotkun og þ.a.l. niðurhali. Ákveðin fyrirtæki hagnist af netnotkun, sem sé að stórum hluta ólögmæt, og því ætti það að vera réttlátt að hluti af ágóða þeirra fyrirtækja rynni til höfundarrétthafa. Fólk sé auðvitað að borga fyrir niðurhalið með netáskriftum og greiðslum fyrir niðurhal frá útlöndum. „Mér finnst ekki hægt að ætlast til þess að fólk sem er að hala niður sé að skoða í hvert skipti hvort það sé ólögmætt því sumar síður eru opnar, sumir setja sitt efni á netið af fúsum og frjálsum vilja. Allt annar hlutur er upphalið, mér finnst engin spurning að það sé ólögmætt,“ segir Eiríkur. Gunnar Guðmundsson tekur undir orð Eiríks um símafyrirtækin og segir að finna verði viðskiptamódel sem falli neytendum í geð.

Mikil bylting hefur orðið í gagnvirkri afþreyingu í heiminum og hin unga tæknivædda kynslóð nýtir sér möguleika netsins sífellt meir. Krafan gerist háværari um meira valfrelsi á afþreyingu og að fólk geti stjórnað sinni dagskrá, horft eða hlustað á það sem það vill, hvenær sem það vill. Útgefendur standa margir í straumnum og kenna niðurhali um að sala dragist saman á tónlist og kvikmyndum. Sönnur hafa heldur ekki verið færðar á áhrif niðurhals á sölu á kvikmyndum og tónlist og virðast hagsmunaaðilar túlka sölutekjur eftir því hvar hagsmunir þeirra liggja. Lesa má nánar um lagalegar túlkanir og skoðanir manna á niðurhali og upphali og áhrifum þess hér til hliðar.

• Blogg um Stöð 2 og niðurhal
• Netfrelsi
• Samtök Myndrétthafa á Íslandi
• Blogg Árna Matthíassonar blaðamanns um niðurhal
• Samtónn
• Alþjóðasamtök hljómplötuframleiðenda
• Íslensk höfundalög