Nýr leikur frá CCP

Dust.
Dust. mbl.is

Íslenski tölvuleikjaframleiðandinn CCP greindi í dag frá nýjum leik, sem fyrirtækið vinnur nú að, en leikurinn mun bera heitið Dust 514. Forstjóri CCP, Hilmar Veigar Pétursson, kynnti leikinn á tölvuleikjaráðstefnunni GDC Europe í Köln fyrir skömmu.

Ólíkt EVE Online leiknum, sem spilaður er á hefðbundnar borðtölvur, verður Dust 514 spilaður á leikjatölvur. Ekki hefur enn verið ákveðið hvaða leikjatölvur munu geta spilað leikinn, en helstu tölvur þessarar tegundar eru Xbox 360 og Playstation 3. Verður þetta í fyrsta sinn sem heimur EVE opnast fyrir leikjatölvuspilara.

Fyrstu persónu skotleikur

Dust 514 verður svokallaður fyrstu persónu skotleikur (FPS), þar sem spilarar munu berjast sín í millum með skotvopnum, brynvögnum og flugvélum. Munu spilarar geta breytt þessum vopnum og hergögnum sjálfir. Þá verður lög meiri áhersla á herkænsku en gert er í mörgum slíkum leikjum. Blandast því við ákveðnir þættir úr leikjum, sem kallast rauntíma herkænsku (RTS) leikir.

Það sem gera mun Dust 514 frábrugðinn öðrum FPS leikjum er að leikurinn mun tengjast beint við EVE Online, en slík tenging milli leikja hefur ekki verið reynd áður með þessum hætti. Spilarar í Dust munu berjast á plánetum sem eru í hinum stóra heimi EVE. Líkt og í EVE er ætlunin sú að hegðun og háttsemi spilara hafi áhrif á heim leiksins. Heimurinn verður það sem kallast á leikjamáli„viðvarandi heimur“, sem ekki hverfur þótt spilari slökkvi á tölvunni.

Þá er hugsun CCP að leikirnir tveir, EVE og Dust, geti haft áhrif hvor á annan, þ.e. að hegðun spilara í Dust geti haft áhrif á EVE og öfugt. Ekki er þó enn komið á fast hvernig þessi gagnkvæmu áhrif muni virka.

Merki Dust 514.
Merki Dust 514.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert