Borgar sig að eignast börn með tveggja ára millibili og ekki fleiri en fimm

Nýfæddir Íslendingar á fæðingargangi Landspítalans.
Nýfæddir Íslendingar á fæðingargangi Landspítalans. mbl.is

Konur ættu að eignast börn með tveggja ára millibili og láta fimm börn nægja. Þetta er álit sérfræðinga og er þar tekið mið af heilsufarslegum þáttum. Ef kona eignast barn 18 mánuðum eftir seinustu fæðingu eða eftir meira en 59 mánuði þá er hættan meiri á því að barnið fæðist fyrir tímann og að það verði mjög létt við fæðingu. Þá er ótalið það líkamlega álag sem móðirin þarf að þola.

Konur bíða sífellt lengur með að eignast börn í nútímasamfélagi og flýta sér svo að eiga þau með sem stystu millibili, segir í frétt á Sky fréttavefnum. Bandarískir vísindamenn tóku mið af 68 rannsóknum sem samtals söfnuðu upplýsingum um ellefu milljónir þungana og segir af þessum niðurstöðum í tímariti bandarísku læknasamtakanna, Journal of the American Medical Association.

Þær konur sem skemmstan tíma létu líða milli þungana áttu 40% meiri hættu á því að börnin fæddust fyrir tímann, 61% meiri líkur voru á því að barnið fæddist mjög létt og 26% meiri líkur á því að þau yrðu lítil miðað við aldur. Ein skýringanna gæti verið sú, að sögn rannsakenda, að mæður þurfi lengri tíma til að ná sér milli fæðinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert