„Ég var búinn að segja það við Óla (Ólaf Jóhannesson) að við myndum fá Hollendinga og það stóðst. Mér líst ljómandi vel á riðilinn. Vissulega er erfitt fyrir okkur að vera í 5 liða riðli en við þekkjum vel til þriggja liða af fjórum - Makedónía er það lið sem við vitum hvað minnst um. Að mínu mati hentar það okkur vel að leika gegn Hollendingum, Skotum og Norðmönnum og þetta verður mjög spennandi verkefni,“ sagði Pétur Pétursson aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins við mbl.is rétt í þessu.
Hann fylgdist með gangi mála í Suður-Afríku og þegar aðeins tvær þjóðir í efsta styrkleikaflokknum voru eftir, Ítalía og Holland, var spennan í hámarki. „Heimsmeistaralið Ítalíu hefði að sjálfsögðu verið frábær mótherji en við fáum Holland sem er eitt skemmtilegasta landslið Evrópu. Ég þekki vel til knattspyrnunnar í Hollandi eftir að hafa leikið með Feyenoord á sínum tíma. Ég mun fara á gamla heimavöllinn þegar við leikum gegn Hollendingum ytra og þetta er því mjög spennandi allt saman,“ bætti Pétur við.