Materazzi skýrir loks frá því hvað hann sagði við Zidane

Zidane stangar Materazzi í úrslitaleik HM.
Zidane stangar Materazzi í úrslitaleik HM. Reuters

Ítalski knattspyrnumaðurinn Marco Materazzi hefur loks skýrt frá því hvað hann sagði við Frakkann Zinedine Zidane, sem varð til þess að Zidane stangaði Materazzi í brjóstið í úrslitaleik heimsmeistaramótsins í knattspyrnu og fékk að líta rauða spjaldið að launum.

Miklar vangaveltur voru um hvað Materazzi hefði sagt við Zidane og varð til þess að Frakkinn missti stjórn á skapi sínu. Materazzi segir í viðtali við ítalska íþróttablaðið Gazzetta dello Sport, að hann hafi minnst á systur Zidanes.

„Ég togaði í treyjuna hans og hann sagði við mig: Ef þú vilt eiga treyjuna mína skal ég gefa þér hana á eftir leikinn. Ég svaraði að ég vildi frekar systur hans," segir Materazzi.

Hann bætti við: „Það var auðvitað ekki fallegt að segja þetta, ég viðurkenni það. En leikmenn láta oft miklu verri orð falla. Ég vissi ekki einu sinni hvort hann ætti systur þegar þetta gerðist."

Alþjóða knattspyrnusambandið dæmdi Materazzi síðar í tveggja leikja bann og Zidane í þriggja leikja bann og jafnvirði nærri 400 þúsund króna sekt.

Zidane, sem er hættur keppni, hefur aldrei upplýst hvað Materazzi sagði við hann og hann hefur jafnframt neitað að biðja Ítalann afsökunar á árásinni. Þegar Zidane var spurður 12. júlí sl. hvað Materazzi hefði sagt, svaraði Zidane aðeins, að það hefði verið afar persónulegt og snúist um móður hans og systur.

„Maður heyrir slíkt einu sinni og reynir að láta það sem vind um eyrun þjóta. Ég ætlaði að gera það vegna þess að ég er að hætta keppni. En síðan heyrir maður það aftur og í þriðja skipti..."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert