Birgir Leifur: „Þetta var ljúf byrjun“

Birgir Leifur Hafþórsson í Hainan í Kína.
Birgir Leifur Hafþórsson í Hainan í Kína. mbl.is/Elísabet Halldórsdótir.

„Þetta var ljúf byrjun en skorin á mótinu til þessa eru mjög góð og ég held að í fyrra hafi þeir sem léku á 5 undir pari eftir 36 holur ekki komist áfram,“ sagði Birgir Leifur Hafþórsson atvinnukylfingur úr GKG við mbl.is í morgun eftir að hann lauk við fyrsta hringinn á TCL-meistaramótinu í golfi á Evrópumótaröðinni. Birgir lék fyrsta hringinn á 68 höggum eða 4 höggum undir pari vallar.

Völlurinn gefur færi á sér

„Ég hefði kannski viljað vera tveimur höggum betri en ég fékk tvö góð fuglafæri á fyrstu fjórum holunum á síðari 9 holunum. Á 7. braut gerði ég mistök en náði að bjarga parinu og eini skollinn á hringnum kom á 8. braut og það voru í raun einu vandræðin sem ég kom mér í. Allt annað gekk mjög vel og ég get ekki annað en verið sáttur við þessa byrjun.“ Birgir segir að völlurinn sé ekki mjög langur og því gefi hann færi á sér fyrir högglanga kylfinga.

Þarf þrjá svona hringi í viðbót

„Ég nýtti mér ágætlega þá möguleika sem par 5 brautirnar buðu upp á. Upphafshöggin voru flest mjög góð og í raun er þetta mót púttkeppni þar sem að flatirnar eru frekar litlar og ef maður hittir flötina á maður ágæta möguleika á fugli. Það er nóg af vötnum á þessum velli og ef menn eru ekki á boltanum þá er völlurinn fljótur að refsa manni. Grasið í flötunum er frekar dökkt og stundum er erfitt að átta sig á því í hvaða átt grasið liggur. Það er Bermúdagras í flötunum en boltinn heldur ágætlega línu í púttunum og ekkert hægt að kvarta yfir því. Ég þarf að leika þrjá svona hringi í viðbót til þess að vera með í baráttunni,“ sagði Birgir Leifur Hafþórsson.

Ítarlegt viðtal við Birgi verður birt í Morgunblaðinu á morgun og einnig segir hann frá gangi mála á birgirleifur.blog.is

Staðan á mótinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert