Birgir komst í gegnum niðurskurðinn í Kína

Birgir Leifur Hafþórsson.
Birgir Leifur Hafþórsson. mbl.is

Birgir Leifur Hafþórsson atvinnukylfingur úr GKG komst í gegnum niðurskurðinn á TCL-meistaramótinu á Hainan eyju í Kína en mótið er hluti af Evrópu – og Asíumótaröðinni. Birgir lék á 70 höggum í dag eða 2 höggum undir pari og samtals er hann á 6 höggum undir pari. Þessi árangur skilar honum í 37. sæti fyrir þriðja keppnisdaginn en Birgir er 11 höggum á eftir efsta manni Chapchai Nirat frá Taílandi sem hefur leikið 36 holur á 17 höggum undir pari samtals.

Staðan á mótinu.

Skorkort Birgis Leifs.

Birgir hóf leik á 1. teig í dag og lék hann fyrstu 9 holurnar á pari, þar sem hann fékk fugl á 1. braut og skolla á 6. braut. Hann lagaði stöðu sína með tveimur fuglum í röð á 12. og 13. braut en aðrar brautir lék hann á pari vallar.

Þetta er fjórða mótið hjá Birgi á Evrópumótaröðinni frá því hann fékk keppnisrétt á Evrópumótaröðinni í nóvember s.l. Birgir lék á tveimur mótum í S-Afríku í desember og komst í gegnum niðurskurðinn á öðru þeirra og hann komst einnig í gegnum niðurskurðinn á móti sem fram fór í Indónesíu um miðjan febrúar. Birgir endaði í 59. sæti á mótinu í Indónesíu og hann varð í 82. sæti á opna suðurafríska meistaramótinu í desember. Birgir var í 226. sæti peningalista Evrópumótaraðarinnar fyrir mótið í Kína en 115 efstu á þeim lista í lok keppnistímabilsins í október halda keppnisrétti sínum á mótaröðinni.

Árið 2005 lék Birgir á þremur mótum á Evrópumótaröðinni og 49. sæti á móti í Sviss var besti árangur hans en hann komst ekki í gegnum niðurskurðinn á hinum tveimur. Árið 2003 lék Birgir einnig á þremur mótum á Evrópumótaröðinni og náði hann besta árangri sínum til þess á Madeira þar sem hann endaði í 32. sæti. Hann komst í gegnum niðurskurðinn á tveimur mótum árið 2005 og á móti á Írlandi endaði hann í 43. sæti. Árið 1998 lék Birgir á þremur mótum á Evrópumótaröðinni og komst í gegnum niðurskurðinn á tveimur þeirra. Hann varð í 53. sæti á móti sem fram fór á Mallorca á Spáni og í Marokkó endaði hann í 68. sæti.

birgirleifur.blog.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert