Vextir gætu orðið 150 milljarðar kr.

eftir Bjarna Ólafsson

bjarni@mbl.is

AFKOMA ríkissjóðs á næsta ári er áætluð neikvæð um 187 milljarða króna, sem er 12,3% af landsframleiðslu. Er ástæðan sögð aukin vaxtagjöld og minni vaxtatekjur vegna hruns bankanna. Aukin vaxtagjöld eru bein afleiðing af skuldsetningu ríkissjóðs, sem fjallað hefur verið um á síðum Morgunblaðsins.

Er í spánni gert ráð fyrir því að skuldir ríkissjóðs verði um 33% af vergri landsframleiðslu (VLF) í ár, eða um 500 milljarðar króna. Ekki eru þó teknar með í þann reikning skuldbindingar vegna Icesave-reikninga Landsbankans og þá eru lánsloforð erlendis frá ekki heldur tekin með, þar sem ekki er vitað að hve miklu leyti þau verði nýtt.

Erlendar skuldir þjóðarbúsins voru í lok september í fyrra 816% af VLF, en voru 182% af VLF árið 2004. Haraldur L. Haraldsson hagfræðingur segir að skuldir annarra en banka hafi rúmlega fjórfaldast á tímabilinu, úr 443 milljörðum, eða 48,4% af VLF, í 1.803 milljarða, sem eru 128% af VLF. Miðað við 5% vexti sé vaxtabyrði vegna þessara skulda um 90 milljarðar króna á ári.

Komi til þess að íslenska ríkið taki 650 milljarða króna lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og 600 milljarða króna lán vegna Icesave muni vaxtabyrðin aukast um allt að 63 milljarða króna á ári. Gangi þetta eftir verða skuldir ríkis og sveitarfélaga orðnar hærri en allar erlendar skuldir þjóðarbúsins árið 2004, eða 1.776 milljarðar kr. samanborið við 1.663 milljarða kr. Ljóst megi vera að ekki verði auðvelt að standa skil á greiðslum vaxta vegna þessara lána, hvað þá afborgunum. Segir Haraldur að kaupmáttur verði á þessu ári svipaður og árið 1999. Frá árinu 1999 hafa skuldir heimila tæplega fjórfaldast. Heimilin þurfi því í ár að standa skil á skuldum, sem eru tæplega fjórfalt hærri en árið 1999, en með svipuðum kaupmætti og þá var.

Ísland geti ekki staðið undir þessum skuldum og því fyrr sem það verður viðurkennt því fyrr sé hægt að bregðast við.

Segir Haraldur að rétt sé að hefja sem fyrst viðræður við Evrópusambandið um aðild og upptöku evru. Mikilvægt sé að í viðræðunum sé gengið út frá því að Ísland geti ekki staðið við erlendar skuldir sínar að fullu.

Í hnotskurn
» Haraldur segir útreikninga sína byggða á opinberum upplýsingum frá Seðlabanka, Hagstofu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.
» Miðað við spár sjóðsins muni landsframleiðsla dragast saman um 9,6% á þessu ári og kaupmáttur verða svipaður og árið 1999.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK