„Þetta er tilfinningarússíbani sem maður fer í gegnum“

Kjartan Þórisson er gestur Snorra Mássonar.
Kjartan Þórisson er gestur Snorra Mássonar. Ljósmynd/Samsett

Kjartan Þórisson 28 ára frumkvöðull er framkvæmdastjóri Noona sem er fyrirtæki með viðskiptavini í yfir 20 löngum en þar starfa á fimmta tug manns. Hann er gestur Snorra Mássonar ritstjóra og fer yfir víðan völl. 

Noona-appið, sem hlaut Íslensku vefverðlaunin á dögunum sem „app ársins“, aðstoðar hundruð fyrirtækja við að sjá um tímabókanir á alls kyns þjónustu. Fyrirtækið varð til sem hliðarverkefni hjá Kjartani í menntaskóla fyrir um tíu árum og er nú farið að taka yfir önnur fyrirtæki. Á dögunum keypti það íslenska viðskiptalausnafyrirtækið Salescloud. 

„Það eru margar skemmtilegar myndlíkingar sem hafa verið búnar til í kringum það að stofna fyrirtæki og fara að „frumkvöðlast.“ Ein af þeim er sú að maður kastar sjálfum sér fram af kletti og maður þarf að byggja flugvélina á leiðinni niður til að geta flogið og lifað af,“ segir Kjartan.

„Þetta er tilfinningarússíbani sem maður fer í gegnum og þetta verður smá þráhyggja og maður getur verið og er örugglega yfirleitt sinn versti óvinur. Þessa dagana, blessunarlega, líður mér eins og botninn sé í baksýnisspeglinum. Kannski tekur hann einhvern tíma við manni aftur í framtíðinni og þá er ég alltaf tilbúinn. En þessa dagana er skemmtilegt að vera til og það er skemmtilegt að vera Noon-verji.“

Eftir kaupin á Salescloud fer í hönd ferli þar sem þjónustuframboð Noona og Salescloud er hægt og rólega fært undir sama vörumerki, Noona. Stefnan er á næstu misserum að halda áfram útrás erlendis og þar telur Kjartan að samkeppnisforskot Noona séu þeir hvatar sem fyrirtæki hafa að skipta við Noona frekar en önnur tímabókunarkerfi.

„Samkeppnisaðilar okkar erlendis hafa sumir gjald sem þeir taka fyrir hvert skipti sem þeir senda kúnna í fyrsta skipti til viðskiptavinar. Þar með bókunarkerfið komið með hvata til þess að senda viðskiptavinina til eins margra fyrirtækja og þeir geta. Það er akkúrat á móti hvatanum sem fyrirtækin hafa, sem vilja fá tryggan kúnnahóp sem kemur aftur og aftur. Þarna hefur hvatakerfið ekki verið hannað nægilega vel. Að mínu mati hafa þau með þessu sáð fræjunum að eigin falli. Við eigum eftir að sýna þeim það,“ segir Kjartan.

Hægt er að horfa á viðtalið hér fyrir neðan: 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál