Goggurinn hjálpar til við að brjóta ísinn

Sólrún var að dunda sér við grafíska hönnun sem áhugamál …
Sólrún var að dunda sér við grafíska hönnun sem áhugamál í tölvunni þegar hún prófaði að gera gogg. Samsett mynd

Sólrún Fönn Þórðardóttir, sérfræðingur í banka, hefur búið til skemmtilega gogga fyrir fermingarborðin. Hún gerði gogga fyrir fermingarveislur barna sinna en bæði börnin fengu tvær fermingarveislur. Goggarnir eru skemmtileg leið til þess að lífga upp á borðið og skemmta gestum.

„Ég á tvö börn sem eru fædd 2005 og 2008, auðvitað gerði ég gogg fyrir veislurnar þeirra. Þetta urðu í raun fjórar fermingarveislur, þar sem við fjölskyldan bjuggum úti í Danmörku á þessum tíma og vorum með eina fermingarveislu í Danmörku og aðra fyrir fjölskylduna á Íslandi fyrir bæði börnin mín. Það að fermast er stór stund í lífi hverrar manneskju og finnst mér mikilvægt að skreyta salinn með alls konar skrauti. Til dæmis hannaði ég líka með tölvuteiknað plakat sem sýnir mynd af fermingarbarninu í fermingarfötunum sem þau klæðast á stóra deginum, nafn og fermingardagur stendur svo á myndinni þannig að þau geta þá átt myndina sem minningu um þennan stóra dag í lífi þeirra. Myndirnar hafa einnig verið mjög vinsælar hjá mér til þess að hafa á gjafaborðinu en goggarnir eru svo vanalega dreifðir á öll borðin. Þeir skapa ávallt skemmtilega stemningu á borðunum og fræða skyldmennin aðeins um fermingarbarnið.“

Sólrún bjó til fermingargogga fyrir börnin sín tvö.
Sólrún bjó til fermingargogga fyrir börnin sín tvö.

Goggurinn hjálpar til við að brjóta ísinn

Sólrún segir að þrátt fyrir að hún hafi aðeins búið til gogga fyrir fermingarveislur sé vel hægt að nýta hugmyndina fyrir aðrar veislur. Hún fékk til að mynda fyrst hugmyndina þegar hún sá gogg fyrir brúðkaupsveislu.

„Mig minnir að ég hafi gert fyrsta gogginn árið 2014, sá þessa hugmynd á danskri vefsíðu. Aðilinn gerði gogg fyrir brúðkaup og í goggnum var matseðill kvöldsins. Á þessum tíma var ég mikið að vinna með grafíska hönnun sem hobbí heima hjá mér, en síðan ég var barn hefur mér fundist gaman að skapa eitthvað. Það er líka skemmtilegt að sem barn var ég oft að gera svona gogga, nema þá í höndunum en ekki í tölvu. Ég ákvað að prófa að gera svona gogg, fór í það að hanna gogginn í tölvunni minni og skrifaði svo átta skemmtilegar staðreyndir um eldra barnið mitt, en hann var þá aðeins tíu ára. Ég setti svo tvær myndir af honum, nafnið hans og skáldaði fermingardag til þess að búa til sýnishorn. Ég var rosalega ánægð með útkomuna og deildi með mínum nánustu. Svo fór þetta að spyrjast út og fólk var að deila hugmyndinni minni og ég var allt í einu komin með mikið af fyrirspurnum á Facebook um hvort ég gæti gert svona gogg fyrir fermingarbarnið þeirra, sem ég tók auðvitað mjög vel í. Enda er goggurinn fallegt borðskraut sem fær gestina til að tala saman og hjálpar mögulega til við að brjóta ísinn á einhverjum borðum.“

Fermingargoggarnir eru í stíl við litaþemað í veislunni.
Fermingargoggarnir eru í stíl við litaþemað í veislunni.

Sólrún segir að goggurinn sem hún gerir hafi breyst mikið síðan hún byrjaði að prófa sig áfram fyrir tíu árum.

„Fyrst var hann frekar einfaldur og var ég einungis með átta staðreyndir um fermingarbarnið en með tímanum þróaðist hann og nýjar hugmyndir komu. Í dag er goggurinn þannig að ég er með þrjár myndir af fermingarbarninu, tvær litlar sem eru á sitthvorum vængnum og þriðja myndin er stærri og í miðjunni, þar set ég líka texta sem stendur „Takk fyrir komuna“. Á þriðja vængnum set ég nafn fermingarbarnsins og á þann fjórða set ég fermingardaginn. Einnig hef ég verið að vinna með liti út frá þemanu sem fermingarbarnið ætlar að hafa í fermingarveislunni hjá sér. Ég hef látið fólk velja hvort það vilji fá staðreyndir eða spurningar í gogginn, það er mjög misjafnt hvernig fólk vill hafa þá en oftast auðvelt að verða við óskum þess. Í stað þess að skrifa númer -set ég inn spurningu sem fermingarbarnið og fjölskylda hefur sent mér og svarið fer svo undir, það getur verið til dæmis „hvaða fótboltaliði held ég með?“ eða „hvað er uppáhaldsfagið mitt í skólanum?“, „hvað hef ég æft fimleika í mörg ár?“ Þegar maður opnar flipann sér maður svarið við spurningunni.“

Er flókið að gera svona gogg?

„Fyrst þegar ég var að hanna svona gogga í tölvunni var þetta smá púsl en svo bjó ég til skapalón sem ég nota sem grunn. Það eru engir tveir goggar eins hjá mér, þar sem ég hanna þá yfirleitt í samvinnu við foreldra og fermingarbarn, út frá litaþema veislunnar.“

Hefur þetta vakið mikla athygli?

„Já, heldur betur, ég hef varla undan að svara skilaboðum á Facebook en geri að sjálfsögðu mitt besta til að svara öllum. Nú er ég samt sem áður ekki að vinna við þetta heldur lít á þetta sem áhugamál og til gamans.“

Fermingardagurinn er stór dagur og þá skiptir máli að búa …
Fermingardagurinn er stór dagur og þá skiptir máli að búa til skemmtilega stemningu, hvort sem það er með fallegu korti eða skrauti í veislunni. Ljósmynd/Aðsend

Börnin fermd en eru enn að hjálpa öðrum

Finnst þér mikilvægt að búa til góða stemningu í fermingarveislum?

„Já, algjörlega, það er gaman að brjóta upp veisluna með einhverju skemmtilegu. Ég hef einnig útbúið myndband þar sem ég klippti saman skemmtilegar myndir af fermingarbarninu sem var síðan varpað á á vegginn í veislunni, ég hef gert alls kyns skraut fyrir veislur, auðvitað goggurinn, velkomin-plaköt, tölvuteiknaðar myndir af fermingarbarninu, gestabók, skiltin við matinn og margt fleira.“

Hefur þú lært eitthvað á því að halda fermingarveislur?

„Ég fæ alltaf einhverjar nýjar hugmyndir með hverju ári sem líður og það nýjasta er „Velkomin í ferminguna mína“ plakatið sem hefur verið vinsælt á gjafaborðinu við gestabókina. Nú eru börnin mín búin að fermast en ég er ávallt að aðstoða aðra með að koma með góðar hugmyndir fyrir veisluna. Ég hef verið að hanna fermingarboðskort, fermingar „banner“-mynd á Facebook-viðburði, nafnaskilti á borðin, miða á flöskur og margt fleira,“ segir Sólrún.

Sólrún Fönn er alltaf að fá nýjar hugmyndir.
Sólrún Fönn er alltaf að fá nýjar hugmyndir. Ljósmynd/Aðsend
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál