c

Pistlar:

20. maí 2024 kl. 13:53

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Reykjavík, húsin rísa og vegirnir hverfa

Verandi íbúi í Vogahverfinu hef ég lengst af þurft að keyra Suðurlandsbraut og efsta hluta Laugarvegar til og frá vinnu. Þar hafa verið tvöfaldar akreinar og í seinni tíð er umferðin þung. Þarna á borgarlínan að koma, hún mun helga sér miðjuna á veginum og fyrir vikið hverfa tvær akreinar báðum megin. Nú er rætt um að færa umferðahraða á Suðurlandsbraut niður í 40 km, úr 60 km. Erfitt er að ráða í hvernig þetta á að ganga allt saman nema Íslendingar flykkist í stórum hópum í borgarlínuna sem ekkert segir til um að verði.laugard.1

Mesta uppbygging innan borgarhlutans sem ég bý í hefur á liðnum árum verið á fyrrum atvinnusvæðum á Kirkjusandi og í Vogabyggð. Í tilfelli Vogabyggðar stefnir í mikið umferðaöngþveiti enda algerlega óvíst hvernig Sundabraut eða Sæbrautarstokkur verða útfærð, verði þessi mannvirki á annað borð að veruleika. Skeiðavogurinn er nú á álagstíma samfeld bílaröð en hann er í raun eina leiðin frá Vogabyggð og athafnasvæðinu inn í Skeifu og miðbæinn. Skeiðavogurinn var í eina tíð tvær akbrautir.

Enn virðist fullkomin óvissa um hvort byggð verður brú eða grafin jarðgöng í tilfelli Sundabrautar. Ef á að grafa jarðgöng eins og Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hóf umræðu um fyrir stuttu krefst það mikilla rannsókna á jarðlögum og myndi sjálfsagt tefja framkvæmdina talsvert miðað við ef farin verður brúarleiðin. Stjórnvöld hafa ekki verið afgerandi um þessa kosti.

Mikil íbúðabyggð í kringum Laugardal

Meðfram Suðurlandsbraut og Laugavegi er verið að reisa mikla íbúabyggð og meira væntanlegt. Á reitnum sem kenndur er við Orkuveituna eru að rísa um 480 íbúðir og hinum megin gatnamótanna, á horni Grensásvegar og Suðurlandsbrautar, eru um 180 til 200 íbúðir í smíðum. Gera má ráð fyrir áframhaldandi byggingu íbúða inn í Skeifunni og í framtíðarskipulagi er talað um 250 íbúðir þar til viðbótar. Við Glæsibæ eru í þessu sama framtíðarskipulagi áætlaðar 100 íbúðir. 

Á Heklureitnum svonefnda verða líklega hátt 500 íbúðir þegar upp er staðið og þar sem Sjónvarpshúsið stóð stendur til að reisa hótel. Báðum megin við Valhöll, sem er upp af Laugaveginum, í Bolholti er verið að reisa 50 íbúðir og annað eins á að koma hinum megin við Valhöll, á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Háleitisbrautar. Þessi stutta upptalning segir að það eru að koma á milli 1200 og 1400 íbúðir á þetta svæði. Skammt fyrir neðan á Sigtúnsreitnum svokallaða er einnig verið að reisa fjölda íbúða. Það er gott og blessað, víða má þétta og styrkja byggð en auðvitað hefur þetta álag í för með sér fyrir innviði og ef umferðaþungar akbrautir verða teknar í burtu samhliða er erfitt að sjá hvernig fólk kemst leiðar sinnar. Um leið hefur verið boðað að byggja þurfi nýjan skóla í Laugardal, nokkuð sem kom íbúum algerlega á óvart.laugard2.

Lofuðu 16 þúsund íbúðum

Í auglýsingabæklingi Reykjavíkurborgar fyrir ári síðan, sem dreift var í öll hús á höfuðborgarsvæðinu, var kynnt að Reykjavík hafi í ársbyrjun 2023 verið fyrst sveitarfélaga til að undirrita samkomulag við ríkið og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) um aukið framboð íbúðarhúsnæðis til ársins 2032. Markmiðið er að byggðar verði um 16 þúsund íbúðir á næstu 10 árum og meirihluti þeirra á fyrri hluta tímabilsins. Tekið var fram að rúmlega þriðjungur fyrirhugaðrar uppbyggingar á að verða á viðráðanlegu verði, hagkvæmar, vistvænar og félagslegar. Þannig er ætlunin að byggja allt að 5.600 slíkar íbúðir verða byggðar á næstu tíu árum, en það jafngildir um 10% allra íbúða í Reykjavík. Efast má um að þetta sé nægilegt byggingamagn.

Þegar allt þetta er lesið kemur maður alltaf aftur og aftur að því hvernig samgöngum verður háttað þar sem akbrautir verða teknar í burtu og þrengt að bílum. Hugsanlega má hafa skilning á slíkum framkvæmdum í rótgrónum miðbæjum þar sem göngugötur taka smám saman yfir þó að það getir vafist fyrir mörgum á Íslandi að eiga ekki bíl. Enn er Ísland til þess að gera fámennt og dreifbýlt land og ekki verður séð að neitt komi í staðinn fyrir bílinn. Stundum er bent á reiðhjól sem valkost en þau verða það bara takmarkaðan hluta af árinu og þá fyrir fullfrískt fólk.byggingar

Yfirleitt þegar yfirvöld í Reykjavík kynna nýjar þéttingaáætlanir er teflt fram framkvæmdum sem láta síðan standa á sér. Talsverðum fjármunum var varið í að kanna fýsileika þess að setja upp lestarsamgöngur á milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar. Vissulega gæti slíkt verið áhugavert en flestum var ljóst að kostnaður var gríðarlegur. Stokkar hafa verið kynntir hér og þar, svo sem Miklubrautarstokkur og Sæbrautarstokkur, en þegar á reynir eru þeir verkfræðilega mjög erfiðar framkvæmdir. Hugsanlega væri farsælt að reyna að einbeita sér að klára Sundabraut og nýta sér þá augljósu arðsemi sem er af verkinu.