Betlar þú vorkunn?

Maríanna Pálsdóttir snyrtifræðingur á Snyrtistofu Reykjavíkur.
Maríanna Pálsdóttir snyrtifræðingur á Snyrtistofu Reykjavíkur.

Maríanna Pálsdóttir snyrtifræðingur á Snyrtistofu Reykjavíkur skrifar um það hvernig fólk ætti að taka ábyrgð á sjálfu sér á fullorðins árum og hætta að kenna æskunni um. 

Það er ekkert barn á þessari plánetu sem hefur ekki farið í gegnum erfiðleika í lífinu. Það er engin æska áfallalaus. Auðvitað er misjafnt hvernig spil okkur voru gefin en í lok dags þá er það undir okkur komið og engum öðrum að taka ábyrgð á lífinu eins og það birtist okkur í dag! Ég mun aldrei gera lítið úr áföllum fólks úr æsku, segja þau stór eða smá, áfall er áfall og hver og einn bregst við og vinnur úr þeim á mismunandi hátt. Þessi pistill snýst um það hvernig við ættum að taka ábyrgð á okkur sjálfum á fullorðnisárum og hætta að kenna öðrum um það sem misfarist hefur í lífinu okkar.

Foreldrar okkar fá gjarnan að finna fyrir því þegar æskan fær uppreisn æru. Fólk finnur oft hjá sér mikla löngun til að ræða þessi mál. Það skammast svolítið yfir því hvað hafi valdið því að það sé með lélegt sjálfsmat og þoli ekki spegilmyndina. Það drekkur illa áfengi og tekur inn lyf eða önnur efni til að deifa sársaukann sem býr innra með því.

Fólk getur líka kennt foreldrum sínum um að það eigi ekki nægilega mikla peninga því það var auðvitað þeirra að kenna þér fjármálalæsi sem mistókst. 

Ef þú ert fastur/föst í svona hugsanamynstri þá er ég með hugmynd fyrir þig til að pína foreldra þína til baka og grafa þína eigin gröf í leiðinni.

Ein leiðin er að samviskubitsvæða þau þar til þeirra síðasta stund rennur upp. Þú getur grafið undan gamla pakkinu og látið þau líta út eins og skrímsli, kennt þeim um að hafa ekki stutt betur við þig í einu og öllu og verið brjáluð/brjálaður yfir því að þau hafi ekki sagt við þig þúsund sinnum á dag að þau elskuðu þig.

Þú getur líka hefnt þín á þeim og hótað að rústa lífi þeirra ef þau gera ekki nákvæmlega það sem þú vilt. En ætli þú verðir meiri manneskja fyrir vikið? Hokinn af heift út í lífið með enga getu til að sleppa takinu af fortíðinni?

Svona getur þú gulltryggt að þú eyðileggur þitt eigið líf.

Þegar öllu er á botninn hvolft skiptir fortíðin engu máli heldur dagurinn í dag. Hvað þú ætlar að gera til að líf þitt verði bærilegra. Þú þarft að ákveða hvort þú viljir vera fangi hugsana þinna eða rísa upp og setja fortíðina og framtíðina út úr kerfinu þínu fyrir fullt. Allt því fortíðin er bara minning sem þú þarft að ráða við en ekki láta slæmar minningar hennar stjórna líðan þinni. Draga þig niður í svartnættið þar sem reiði, heift, öfundsýki, baktal og sundrung þrífst.

Framtíðin er svo óskrifuð og það er hvorki hægt að sjá né upplifa framtíðina því það er eitthvað sem er ekki enn þá til. Þú getur búið til framtíðarplan en það er einungis fyrir þá sem kunna ekki að lifa daginn í dag, heldur þurfa að skoppa yfir það sem er og hlakka til einhvers sem er ekki til.

Það er líklega stærsti sjúkdómur mannkynsins að festast í minningum fortíðarinnar og komast ekki í núið og upplifa allt það dásamlega sem lífið hefur upp á að bjóða og vera á góðum stað andlega. Ættum við ekki að vinna í því dag frá degi að verða betri manneskjur og líta á áföll sem lærdóm frekar en dauðadóm sem þarf að burðast með út lífið? Þakka jafnvel fyrir að hafa lent í áföllum því annars gætir þú ekki hafa lært. Þeir sem hafa farið í gegnum áföll og erfiðleika eru oftar en ekki lang sterkasta fólkið.

Ég held að margir lifi í veröld þar sem mikil neikvæðni ræður för og það er orðið þeim eðlislægt. Hatast út í það af hverju bernskan var ekki eins og best var á kosið og komast einfaldlega ekki út úr þeim hugsunum. Það getur ekki verið gaman að fara í gegnum lífið þannig. Það er nefnilega ekkert sem getur fyllt hjartað þitt af friði nema þessi stund sem þú átt með þér í dag. Taktu ábyrgð á þér núna því það gerir það enginn annar fyrir þig. Fortíðin er liðin og kemur aldrei aftur. Það skiptir í raun og veru engu máli hvað hefur gerst heldur það sem er hér og nú.

Valið er þitt að vera fórnarlamb að betla samkennd og vorkun frá vinum og fjölskyldumeðlimum eða vera þátttakandi og njóta ferðalagsins sem lífið hefur upp á að bjóða. Fortíðin er minning og þú ættir að passa þig á því að vera ekki fangi hugsana þinna og þar með minnka lífsgæðin þín og takmarka möguleikana þína á að geta lifað lífinu þínu til fulls.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál