Okkar langslakasti leikur

Ásgerður Stefanía Baldursdóttir.
Ásgerður Stefanía Baldursdóttir. mbl.is/Golli

„Þetta var okkar langslakasti leikur í allt sumar,“ sagði Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, fyrirliði Stjörnunnar, ómyrk í máli eftir 2:1-tap gegn Val í toppslag Pepsi-deildarinnar í kvöld.

„Valur átti skilið að fá þrjú stig, ef ég á að vera alveg hreinskilin. Þær spiluðu mikið betur og við áttum virkilega slakan dag,“ sagði Ásgerður. Stjarnan komst yfir snemma leiks en Valur jafnaði um miðjan fyrri hálfleik og sigurmarkið kom svo í uppbótartíma.

„Við fengum draumabyrjun og vorum allt í lagi fyrstu 20 mínúturnar, en svo fannst mér Valskonur bara mættar til leiks. Þær þurftu þrjú stig til að vera í einhverjum séns. Við ætluðum auðvitað líka að taka þrjú stig en stundum er þetta svona. Eitt stig hefði ekkert verið slæmt fyrir okkur, en við förum í alla leiki til að vinna,“ sagði Ásgerður.

Dómari leiksins „algjört bíó“

Valur var sterkari aðilinn í kvöld, jafnvel síðustu mínútur leiksins eftir að hafa misst Pálu Marie Einarsdóttur af velli með rautt spjald. Ásgerður vildi hins vegar meina að Bríet Bragadóttir dómari hefði ekki haft neina stjórn á leiknum, og leyft Valskonum að komast upp með allt of mörg brot:

„Dómari leiksins er „algjört bíó“. Það þarf að skoða þetta. Við vissum uppleggið hjá þeim. Ég held að ég hafi fengið einhver 6-7 spörk aftan í hásinina, án þess að nokkru sinni kæmi spjald. Hún [Bríet dómari] ræður bara ekki við þetta. Það er staðreynd. Við töpuðum ekki út af henni en hún réði ekki við þetta. Við misstum tvo leikmenn meidda af velli og undir venjulegum kringumstæðum hefði ég farið af velli líka vegna meiðsla. Ég bað dómaratríóið um að vernda okkur en það ræður bara ekki við þetta „tempó“, því miður,“ sagði Ásgerður.

Hvað sem því líður er Stjarnan á toppi deildarinnar með 34 stig þegar fjórar umferðir eru eftir, fjórum stigum á undan Val og fimm stigum á undan Breiðabliki sem á leik til góða.

„Auðvitað er maður svekktur eftir tap en þetta er ennþá í okkar höndum. Við þurfum að hysja upp um okkur buxurnar fyrir næsta leik. Við fáum ennþá þrjú stig fyrir að vinna ÍA í næsta leik þó að svona hafi farið í kvöld,“ sagði Ásgerður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert