Stjarnan Íslandsmeistari í fjórða sinn

Stjarn­an tryggði sér í dag sinn fjórða Íslands­meist­ara­titil á sex árum þegar liðið vann ör­ugg­an heima­sig­ur á FH, 4:0, í síðustu um­ferð Pepsi-deild­ar kvenna í knatt­spyrnu. Stjörnu­kon­ur fengu bik­ar­inn af­hent­an í leiks­lok.

Stjarn­an var sterk­ari aðil­inn all­an leik­inn eins og við mátti bú­ast. Liðið sótti stíft í byrj­un en varð lítt ágengt, sem virt­ist auka svo­lítið á spenn­una meðal leik­manna liðsins. Stjörnu­kon­ur hristu hins veg­ar af sér tauga­titr­ing­inn þegar á leið en inn vildi bolt­inn þó ekki þrátt fyr­ir þrjú dauðafæri.

Stífl­an brast hins veg­ar að lok­um þrem­ur mín­út­um fyr­ir lok fyrri hálfleiks, þegar FH náði ekki að hreinsa fyr­ir­gjöf frá marki sínu og Katrín Ásbjörns­dótt­ir skallaði bolt­ann í hornið. Staðan er 1:0 í hálfleik.

Stuðnings­menn Stjörn­unn­ar þurftu svo ekki að bíða lengi í síðari hálfleik eft­ir öðru marki. Eft­ir að Katrín fékk að klappa bolt­an­um nokkuð utan teigs kom hún hon­um á Láru Krist­ínu Peder­sen sem var í litlu jafn­vægi en náði skoti að marki sem Je­ann­ette Williams í marki FH réði ekki við. Staðan 2:0 og aðeins sex mín­út­ur liðnar af síðari hálfleik.

Aðeins sjö mín­út­um síðar kom þriðja markið og aft­ur var það Katrín sem átti stoðsend­ing­una. Fyr­irliðinn Ásgerður Stef­an­ía Bald­urs­dótt­ir vann bolt­ann á miðjunni og geyst­ist fram, lék lag­legt þrí­hyrn­ings­spil við Katrínu og vippaði bolt­an­um svo lag­lega í netið. Staðan 3:0 og tæp­ur klukku­tími eft­ir.

Katrín var ekki hætt og bætti við öðru marki sínu þegar rúm­ur stund­ar­fjórðung­ur var til leiks­loka. Hún lét þá vaða utan teigs og Williams réði ekki við hnit­miðað skot henn­ar. Staðan 4:0 og Stjarn­an fyr­ir löngu búin að tryggja sér titil­inn. Liðið fékk engu að síður fjöl­mörg dauðafæri í viðbót en Williams bjargaði því sem bjargað varð í marki FH und­ir lok­in. Loka­töl­ur 4:0 og fögnuður Stjörn­unn­ar var inni­leg­ur.

Sem fyrr seg­ir er þetta fjórði Íslands­meist­ara­tit­ill Stjörn­unn­ar á síðustu sex árum. Liðið varð meist­ari í fyrsta sinn árið 2011, og fylgdi því eft­ir með tveim­ur titl­um árin 2013 og 2014.

Fylgst var með gangi mála í beinni texta­lýs­ingu hér á mbl.is og þá verður ít­ar­lega fjallað um Íslands­meist­ara­titil­inn í Morg­un­blaðinu á morg­un. Fjöl­mörg viðtöl munu birt­ast hér á vefn­um síðar í kvöld.

Stjarn­an 4:0 FH opna loka
skorar Katrín Ásbjörnsdóttir (42. mín.)
skorar Lára K. Pedersen (51. mín.)
skorar Ásgerður S. Baldursdóttir (58. mín.)
skorar Katrín Ásbjörnsdóttir (74. mín.)
Mörk
Spjöld
fær gult spjald Nótt Jónsdóttir (40. mín.)
fær gult spjald Karólína Lea Vilhjálmsdóttir (65. mín.)
mín.
90 Leik lokið
Stjarnan er Íslandsmeistari!
90 Birna Jóhannsdóttir (Stjarnan) á skot framhjá
+1. Fékk frákastið, ein fyrir galopnu marki en þrumaði yfir. Dauðafæri!
90 Katrín Ásbjörnsdóttir (Stjarnan) á skot sem er varið
+1. Jeannette ver glæsilega enn á ný.
90
Stjarnan þarf að bíða í tvær mínútur í viðbót eftir að geta fagnað titlinum.
89 Ásgerður S. Baldursdóttir (Stjarnan) á skot sem er varið
Ásgerður fékk frákastið en aftur varði Jeannette glæsilega!
89 Amanda Frisbie (Stjarnan) á skot sem er varið
Óvænt komin ein í gegn en glæsilega varið!
87 Anna María Björnsdóttir (Stjarnan) á skot framhjá
Næstum búin að skrúfa boltann í hornið af löngu færi, en framhjá.
87 Ana V. Cate (Stjarnan) á skot sem er varið
Keyrði áræðin inn á teig en Jeannette kom aftur vel út á móti henni. Ana ætlar sér að skora.
85 Ana V. Cate (Stjarnan) á skalla sem er varinn
María Eva með fyrirgjöfina, Ana fær tíma til að stýra skallanum á markið en Jeannette ver.
82 Ana V. Cate (Stjarnan) á skot sem er varið
Enn er Katrín að spila liðsfélaga sína í gegnum vörnina. Nú var Ana komin ein gegn Jeannette sem varði glæsilega frá henni.
81 Birna Jóhannsdóttir (Stjarnan) kemur inn á
81 Agla María Albertsdóttir (Stjarnan) fer af velli
79 Alex Alugas (FH) á skot framhjá
Efnileg sókn en Alex var of lengi að athafna sig. Skotið fór svo hátt yfir.
78 Katrín Ásbjörnsdóttir (Stjarnan) á skot sem er varið
Beint á Jeannette í þetta sinn.
78 María Eva Eyjólfsdóttir (Stjarnan) kemur inn á
78 Bryndís Björnsdóttir (Stjarnan) fer af velli
77
Yfirburðir Stjörnunnar hafa verið gríðarlegir. Heimakonur hafa átt átján tilraunir að marki, þar af ellefu á rammann. FH hefur ekki enn átt tilraun.
74 MARK! Katrín Ásbjörnsdóttir (Stjarnan) skorar
4:0 - Þvílíkur leikur hjá Katrínu! Hún lætur bara vaða utan teigs, boltinn fer með jörðinni og kemur Jeannette í vandræði sem slær hann hálfpartinn inn. Annað mark Katrínar, sem einnig hefur lagt upp hin tvö mörkin!
71
Guðný tekur aukaspyrnu fyrir FH, en yfir allan pakkann á teignum.
69 Rannveig Bjarnadóttir (FH) kemur inn á
69 Selma Dögg Björg­vins­dótt­ir (FH) fer af velli
69 Anna María Björnsdóttir (Stjarnan) kemur inn á
69 Sigrún Ella Einarsdóttir (Stjarnan) fer af velli
69
Hornspyrnan fer út um þúfur.
68 Stjarnan fær hornspyrnu
68 Agla María Albertsdóttir (Stjarnan) á skot sem er varið
Náði óvæntu skoti eftir að hafa snúið í teignum, Jeannette í vandræðum.
68
Ekkert kom úr hornspyrnunni en pressa Stjörnunnar heldur áfram. Þær eru að klára þetta með stæl.
67 Stjarnan fær hornspyrnu
67 Katrín Ásbjörnsdóttir (Stjarnan) á skot í þverslá
Lúmskt skot sem Jeannette ver í slá og yfir.
66
Hornspyrnan ratar í innkast.
65 Stjarnan fær hornspyrnu
Jeannette kýldi aukaspyrnu Ásgerðar afturfyrir endamörk.
65 Karólína Lea Vilhjálmsdóttir (FH) fær gult spjald
Fyrir brot.
58 MARK! Ásgerður S. Baldursdóttir (Stjarnan) skorar
3:0 - Glæsileg skyndisókn! Fyrirliðinn velur aldeilis tímapunktinn til að skora sitt fyrsta mark á tímabilinu. Hún vann boltann á miðjunni og keyrði fram, eftir þríhyrningsspil við Katrínu er hún svo sloppin ein í gegn og vippar laglega í netið.
55 Helena Ósk Hálfdánardóttir (FH) kemur inn á
55 Nadía Atladóttir (FH) fer af velli
52 Viktoría Valdís Guðrúnardóttir (FH) kemur inn á
52 Melkorka Katrín Pétursdóttir (FH) fer af velli
51 MARK! Lára K. Pedersen (Stjarnan) skorar
2:0 - Katrín Ásbjörnsdóttir lék með boltann utan teigs, renndi honum á Láru sem náði skoti á markið í nánast engu jafnvægi sem söng í netinu. Staðan orðin enn vænlegri fyrir Stjörnuna.
50 Stjarnan fær hornspyrnu
49 Lára K. Pedersen (Stjarnan) á skot sem er varið
Með mann í bakinu, náði að snúa og skaut að marki en Jeannette varði vel.
46 Seinni hálfleikur hafinn
FH tekur miðju.
45
Það var einhver reikistefna þegar liðin gengu til leikhlés. Svo virtist sem einhver úr þjálfarateymi FH hafi rifið aðeins í Katrínu Ásbjörnsdóttur að mér sýndist. Um hvað málið snerist er ég ekki viss.
45 Hálfleikur
Íslandsmeistaratitillinn er á leið í Garðabæinn á ný eins og sakir standa.
45
Að minnsta kosti ein mínúta í uppbótartíma.
44
Eins og úrslitin standa þá mun Stjarnan vinna titilinn með 44 stig, fimm stigum meira en Blikar sem eru undir gegn Val.
44 Sigrún Ella Einarsdóttir (Stjarnan) á skot framhjá
Ætlaði að skrúfa boltann upp í vinkilinn, en náði ekki snúningnum í skotinu.
43
Það er þungu fargi af Stjörnunni létt, sérstaklega eftir öll þau dauðafæri sem fóru forgörðum hér fyrr í hálfleiknum.
42 MARK! Katrín Ásbjörnsdóttir (Stjarnan) skorar
1:0 - Fyrirgjöf inn í teiginn, varnarmenn FH ná að skalla boltann frá en ekki lengra en til Katrínar sem stýrði boltanum í vinstra hornið.
40
Ásgerður með aukaspyrnu inn á teiginn, Jeannette kom út og kýldi boltann. Guðný Árnadóttir lá hins vegar óvíg eftir og fær aðhlynningu. Virðist hafa fengið einn á kjaftinn, sem getur ekki hafa verið gott.
40 Nótt Jónsdóttir (FH) fær gult spjald
Fyrir tæklingu á miðjum vellinum.
38
FH í séns. Nadía Atladóttir í klafsi á teignum og reynir skot, en Amanda Frisbie hendir sér fyrir það á elleftu stundu.
38 Jenna McCormick (Stjarnan) á skalla sem fer framhjá
Og enn eitt dauðafærið! Ásgerður með enn eina aukaspyrnu sem er baneitruð inn á teiginn, Jenna ræðst á boltann í markteignum en skallar yfir!
36 Ásgerður S. Baldursdóttir (Stjarnan) á skot framhjá
Annað dauðafæri Stjörnunnar! Katrín spilar Ásgerði fría með hælnum, hún er komin ein á markteig en þrumar yfir!
34
Alex Alugas við það að sleppa í gegn fyrir FH eftir stungusendingu Nóttar en Berglind kemur út úr markinu og bjargar.
32 Stjarnan fær hornspyrnu
En FH skallar frá.
32 Lára K. Pedersen (Stjarnan) á skalla sem er varinn
Ásgerður með aukaspyrnu, Lára skallar að marki en Jeannette ver glæsilega!
28 Ana V. Cate (Stjarnan) á skot framhjá
Dauuuuðafæri Ana Cate! Katrín með glæsilega stungusendingu og Ana þarf bara rétt að skokka með boltann að markinu. Hún ætlaði að leggja hann í hornið en sendi hann rétt framhjá!
27 Ana V. Cate (Stjarnan) á skot sem er varið
Frábær sprettur hjá Önu, sem keyrir inn á teiginn en er í þröngu færi þegar skotið kemur.
25
Það virðist vera komið smá stress í Stjörnukonur núna eftir annars góða byrjun. FH er farið að sækja í sig veðrið.
21 Ásgerður S. Baldursdóttir (Stjarnan) á skot framhjá
Boltinn fór himinhátt yfir markið.
20 Ásgerður S. Baldursdóttir (Stjarnan) á skot sem er varið
Ásgerður náði fínu skoti á markið sem Jeannette varði aftur út í teiginn. Þar kom Agla askvaðandi en Erna Guðrún náði að bjarga fyrir FH.
16 Agla María Albertsdóttir (Stjarnan) á skalla sem fer framhjá
Flott fyrirgjöf frá Bryndísi, Agla stekkur hátt í teignum en stýrir boltanum rétt framhjá stönginni hægra megin.
15
Ásgerður með stórhættulega aukaspyrnu inn á teiginn sem Jeannette kýlir frá.
13
Áhorfendastúkan er ansi þéttsetin, sem er gaman að sjá. Þrátt fyrir kannski óheppilegan leiktíma.
10
Ásgerður sendir hornspyrnuna í hliðarnetið.
10 Stjarnan fær hornspyrnu
10 Agla María Albertsdóttir (Stjarnan) á skot sem er varið
Ana Cate fann Öglu, sem keyrði áræðin inn í teiginn. Hún náði föstu skoti í fínu færi en Jeannette Williams varði mjög vel í marki FH.
10
Valur var að komast yfir gegn Blikum, sem gera vonir þeirra um að endurheimta titilinn enn svartari.
8 Katrín Ásbjörnsdóttir (Stjarnan) á skot framhjá
Frábær sprettur hjá Öglu upp vinstri kantinn, sendingin fyrir er góð en Katrín hittir boltann afleitlega í fínu færi.
1 Leikur hafinn
Stjarnan tekur miðju og sækir í átt að höfuðborginni í fyrri hálfleik.
0
Fyrir leikinn er Elías Ingi Árnason heiðaraður af KSÍ sem besti dómari ársins í Pepsi-deild kvenna. Það eru leikmenn liðanna sem sjá um kosninguna, en Elías dæmdi tíu leiki í sumar. Hann er varadómari í þessum leik.
0
Í þann mund sem leikmenn ganga hér inn á völlinn þá dró ský fyrir sólu. Það er fljótt að kólna í kjölfarið. Mætti halda að október væri á næsta leiti!
0
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, er mætt á svæðið. Íslandsmeistarabikarinn er í húsinu en ef hlutirnir snúast Blikum í hag þegar flautað er til leiksloka þarf Klara að bruna með hann á Hlíðarenda þar sem Valur og Blikar mætast.
0
Sem fyrr segir er Breiðablik tveimur stigum frá Stjörnunni og getur því enn varið Íslandsmeistaratitil sinn. Eftir síðasta leik spurði ég Katrínu Ásbjörnsdóttur hjá Stjörnunni hvort þær hefðu eitthvað haft auga með leiknum hjá Blikum á sama tíma, en hún sagði eftirminnilega að henni sé skítsama um aðra leiki. Stjörnukonur hugsa bara um að klára sitt.
0
Þarna kemur lið FH einnig. Það er ekki hægt að kvarta yfir aðstæðum hér í Garðabænum, en haustveðrið hefur leikið við íbúa höfuðborgarsvæðisins alla þessa viku. Það er nú glampandi sól og frábærar aðstæður til knattleiks.
0
Stjörnukonur eru mættar út til upphitunar en ekkert bólar á FH-liðinu.
0
Ég er einn mættur í blaðamannastúkuna hér í Garðabæ. Nú rétt í þessu var Stjörnukonan Lára Kristín Pedersen að koma inn til að græja tónlistina fyrir upphitun og, ef allt fer að óskum, sigurhátíðina eftir leik. Hún sagði að það væri komin spenningur í sig fyrir leiknum, en sjálf er hún í byrjunarliðinu en munar samt ekkert um að þurfa að græja tónlistina!
0
Talandi um Hörpu, þá þarf mikið að gerast til þess að hún verði ekki markahæsti leikmaður deildarinnar í ár. Hún hefur skorað 20 mörk í sextán leikjum, fjórum meira en Margrét Lára Viðarsdóttir. Margrét þarf að setja sjö stykki gegn Blikum ætli hún sér að verða markadrottning.
0
Harpa Þorsteinsdóttir var á meðal varamanna Stjörnunnar í síðustu umferð gegn KR, sem kom á óvart þar sem hún er barnshafandi. Hún kom þó ekki við sögu í þeim leik og er ekki á bekknum í dag.
0
Stjarnan varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn árið 2011 og hefur fylgt því eftir með tveimur titlum; 2013 og 2014.
0
Velkomin með mbl.is á Samsung-völlinn þar sem Stjarnan tekur á móti FH í lokaumferð Pepsi-deildar kvenna. Stjarnan er með 41 stig en Breiðablik 39 og Stjörnukonur verða því Íslandsmeistarar í fjórða sinn á sex árum ef þær vinna leikinn. Jafntefli nægir þeim líka, nema Breiðablik vinni fjögurra marka sigur á Val á Hlíðarenda.
Sjá meira
Sjá allt

Stjarnan: (4-3-3) Mark: Berglind Hrund Jónasdóttir. Vörn: Bryndís Björnsdóttir (María Eva Eyjólfsdóttir 78), Jenna McCormick, Amanda Frisbie, Kristrún Kristjánsdóttir. Miðja: Ásgerður S. Baldursdóttir, Ana V. Cate, Lára K. Pedersen. Sókn: Sigrún Ella Einarsdóttir (Anna María Björnsdóttir 69), Katrín Ásbjörnsdóttir, Agla María Albertsdóttir (Birna Jóhannsdóttir 81).
Varamenn: Þóra Björg Helgadóttir (M), Anna María Björnsdóttir, Donna Key Henry, Kolbrún T. Eyjólfsdóttir, María Eva Eyjólfsdóttir, Birna Jóhannsdóttir, Guðný Jónsdóttir.

FH: (4-3-3) Mark: Je­ann­ette J Williams . Vörn: Erna Guðrún Magnús­dótt­ir , Guðný Árna­dótt­ir , Ingi­björg Rún Óla­dótt­ir, Maria Selma Haseta. Miðja: Melkorka Katrín Pétursdóttir (Viktoría Valdís Guðrúnardóttir 52), Selma Dögg Björg­vins­dótt­ir (Rannveig Bjarnadóttir 69), Karólína Lea Vilhjálmsdóttir . Sókn: Alex Alugas, Nadía Atladóttir (Helena Ósk Hálfdánardóttir 55), Nótt Jónsdóttir.
Varamenn: Aníta Dögg Guðmundsdóttir (M), Úlfa Dís Úlfarsdóttir, Viktoría Valdís Guðrúnardóttir , Helena Ósk Hálfdánardóttir , Maggý Lárent­sín­us­dótt­ir , Bryndís Hrönn Kristinsdóttir , Rannveig Bjarnadóttir .

Skot: FH 1 (0) - Stjarnan 27 (18)
Horn: Stjarnan 6.

Lýsandi: Andri Yrkill Valsson
Völlur: Samsung-völlurinn
Áhorfendafjöldi: 530

Leikur hefst
30. sept. 2016 16:00

Aðstæður:
Heiðskírt og fallegt veður, léttur andvari og gervigrasið nývökvað.

Dómari: Jóhann Ingi Jónsson
Aðstoðardómarar: Adolf Þorberg Andersen og Magnús Garðarsson

mbl.is

Íslenski fótboltinn

Meira
L U J T Mörk +/- Stig
1 Frakkland 2 2 0 0 4:2 2 6
2 Noregur 2 1 0 1 2:2 0 3
3 Ísland 2 0 1 1 2:3 -1 1
4 Sviss 2 0 1 1 1:2 -1 1
25.02 Frakkland 3:2 Ísland
25.02 Noregur 2:1 Sviss
21.02 Frakkland 1:0 Noregur
21.02 Sviss 0:0 Ísland
04.04 16:45 Ísland : Noregur
04.04 19:00 Sviss : Frakkland
08.04 16:45 Ísland : Sviss
08.04 18:00 Noregur : Frakkland
30.05 18:00 Noregur : Ísland
30.05 19:10 Frakkland : Sviss
03.06 18:00 Ísland : Frakkland
03.06 18:00 Sviss : Noregur
urslit.net
Fleira áhugavert

Íslenski fótboltinn

Meira
L U J T Mörk +/- Stig
1 Frakkland 2 2 0 0 4:2 2 6
2 Noregur 2 1 0 1 2:2 0 3
3 Ísland 2 0 1 1 2:3 -1 1
4 Sviss 2 0 1 1 1:2 -1 1
25.02 Frakkland 3:2 Ísland
25.02 Noregur 2:1 Sviss
21.02 Frakkland 1:0 Noregur
21.02 Sviss 0:0 Ísland
04.04 16:45 Ísland : Noregur
04.04 19:00 Sviss : Frakkland
08.04 16:45 Ísland : Sviss
08.04 18:00 Noregur : Frakkland
30.05 18:00 Noregur : Ísland
30.05 19:10 Frakkland : Sviss
03.06 18:00 Ísland : Frakkland
03.06 18:00 Sviss : Noregur
urslit.net
Fleira áhugavert
Loka