Stjarnan Íslandsmeistari í fjórða sinn

Stjarnan tryggði sér í dag sinn fjórða Íslandsmeistaratitil á sex árum þegar liðið vann öruggan heimasigur á FH, 4:0, í síðustu umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu. Stjörnukonur fengu bikarinn afhentan í leikslok.

Stjarnan var sterkari aðilinn allan leikinn eins og við mátti búast. Liðið sótti stíft í byrjun en varð lítt ágengt, sem virtist auka svolítið á spennuna meðal leikmanna liðsins. Stjörnukonur hristu hins vegar af sér taugatitringinn þegar á leið en inn vildi boltinn þó ekki þrátt fyrir þrjú dauðafæri.

Stíflan brast hins vegar að lokum þremur mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks, þegar FH náði ekki að hreinsa fyrirgjöf frá marki sínu og Katrín Ásbjörnsdóttir skallaði boltann í hornið. Staðan er 1:0 í hálfleik.

Stuðningsmenn Stjörnunnar þurftu svo ekki að bíða lengi í síðari hálfleik eftir öðru marki. Eftir að Katrín fékk að klappa boltanum nokkuð utan teigs kom hún honum á Láru Kristínu Pedersen sem var í litlu jafnvægi en náði skoti að marki sem Jeannette Williams í marki FH réði ekki við. Staðan 2:0 og aðeins sex mínútur liðnar af síðari hálfleik.

Aðeins sjö mínútum síðar kom þriðja markið og aftur var það Katrín sem átti stoðsendinguna. Fyrirliðinn Ásgerður Stefanía Baldursdóttir vann boltann á miðjunni og geystist fram, lék laglegt þríhyrningsspil við Katrínu og vippaði boltanum svo laglega í netið. Staðan 3:0 og tæpur klukkutími eftir.

Katrín var ekki hætt og bætti við öðru marki sínu þegar rúmur stundarfjórðungur var til leiksloka. Hún lét þá vaða utan teigs og Williams réði ekki við hnitmiðað skot hennar. Staðan 4:0 og Stjarnan fyrir löngu búin að tryggja sér titilinn. Liðið fékk engu að síður fjölmörg dauðafæri í viðbót en Williams bjargaði því sem bjargað varð í marki FH undir lokin. Lokatölur 4:0 og fögnuður Stjörnunnar var innilegur.

Sem fyrr segir er þetta fjórði Íslandsmeistaratitill Stjörnunnar á síðustu sex árum. Liðið varð meistari í fyrsta sinn árið 2011, og fylgdi því eftir með tveimur titlum árin 2013 og 2014.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is og þá verður ítarlega fjallað um Íslandsmeistaratitilinn í Morgunblaðinu á morgun. Fjölmörg viðtöl munu birtast hér á vefnum síðar í kvöld.

Stjarnan 4:0 FH opna loka
90. mín. Birna Jóhannsdóttir (Stjarnan) á skot framhjá +1. Fékk frákastið, ein fyrir galopnu marki en þrumaði yfir. Dauðafæri!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert