Stofna vinnuhóp um framtíð Þórs/KA

Þór/KA fagnar marki í sumar.
Þór/KA fagnar marki í sumar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Gefin hefur verið út yfirlýsing um málefni knattspyrnuliðs Þórs/KA í kvennaflokki, en hávær umræða hefur verið eftir einhliða yfirlýsingu KA að framlengja ekki samning um samstarf.

ÍBA, KA og Þór senda frá sér yfirlýsinguna í sameiningu, þar sem upplýst er að stofnaður hefur verið vinnuhópur með það að markmiði að finna grundvöll fyrir frekari samstarfi. Þá hefur verið ákveðið að Þór/KA leiki í hlutlausum búningum á komandi tímabili, sem verður síðasta tímabil sameiginlegs liðs nema gerður verði samningur um annað.

Sjá fyrri frétt­ir mbl.is:

KA slít­ur sam­starfi við Þór

Undr­ast vinnu­brögð KA: „Kom eins og sleggja“

Vill ekki þjálfa leng­ur hjá KA - „Særði mig mikið“

Erfið ákvörðun fyr­ir alla

„Ekki viss um að ég verði KA stelpa áfram“

Yf­ir­lýs­ing KA ætti ekki að hafa áhrif á Ak­ur­eyri

Hall­ar á KA/Þ​​ór í sam­starf­inu - „Erum með KA-hjarta“

Þór/​​​KA sam­an í sum­ar – Farið í hart yfir pen­inga­mál­um?

Hvetja Ak­ur­eyr­inga að tala var­lega

Skipta um forsíðumynd til stuðnings Þórs/KA

Yfirlýsinguna má lesa hér að neðan:

Eins og kunnugt er orðið hefur framtíð kvennaliðs Þórs/KA í meistara- og öðrum flokki kvenna í knattspyrnu verið í uppnámi eftir að aðalstjórn KA sendi frá sér yfirlýsingu um að samningar á milli KA og Þórs um sameiginlega meistaraflokka kvenna í handknattleik og knattspyrnu yrðu ekki endurnýjaðir.

Undanfarna viku hafa staðið yfir viðræður á milli félaganna með milligöngu Íþróttabandalags Akureyrar um samstarfið og framtíð þess með hag KA, Þórs og iðkenda kvennaknattspyrnu á Akureyri að leiðarljósi.

Þessar viðræður hafa nú leitt af sér að bæði félög hafa lýst yfir fullum vilja til að hefja vinnu við að tryggja áframhaldandi samstarf og þar með framtíð Þórs/KA í kvennaknattspyrnu.

Stofnaður hefur verið vinnuhópur með fulltrúum ÍBA, KA og Þórs en markmið hópsins er að koma með tillögur fyrir 10. febrúar nk. að áframhaldandi samstarfi sem tryggir jafna aðkomu beggja félaga að Þór/KA og uppbyggingu kvennaknattspyrnu á Akureyri. Nú þegar hefur verið tekin ákvörðun um að Þór/KA leiki í hlutlausum búningum á komandi keppnistímabili.

Framundan eru sambærilegar viðræður á milli þessara aðila er varða framtíð kvennaliðs KA/Þórs í handknattleik.

Með íþróttakveðju, fyrir hönd ÍBA, KA og Þórs,
Geir Kr. Aðalsteinsson, formaður ÍBA 
Ingvar Gíslason, varaformaður KA 
Árni Óðinsson, formaður Þórs

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert