Geggjað að fá mark í fyrsta leik

Stjörnukonur fagna Henríettu Ágústsdóttur eftir að hún jafnaði metin í …
Stjörnukonur fagna Henríettu Ágústsdóttur eftir að hún jafnaði metin í 1:1 í kvöld. Markið var hennar fyrsta í deildarkeppni á ferlinum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hin 18 ára gamla Henríetta Ágústsdóttir skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild er hún gerði mark Stjörnunnar í tapi gegn nýliðum Víkings á heimavelli í Bestu deildinni í fótbolta í kvöld, 2:1.

„Það var andleysi í byrjun fyrri hálfleiks og eiginlega allan seinni hálfleikinn. Þar áttum við að gera betur,“ sagði Henríetta um leikinn við mbl.is.

Víkingsliðið byrjaði vel og komst yfir snemma leiks. Stjarnan svaraði með því að skapa sér fullt af færum, sem endaði með góðu marki Henríettu. „Við svöruðum því mjög vel að lenda undir og áttum að nýta fleiri færi. Við gerðum það ekki og því fór sem fór.“

Víkingsliðið skoraði sigurmarkið í upphafi seinni hálfleiks og tókst Stjörnunni ekki að skapa sér mikið af opnum færum eftir það.

„Við ætluðum að halda áfram að pressa þær og stíga meira á þær. Við vildum fara framar með liðið en það heppnaðist ekki hjá okkur. Við enduðum einhvern veginn á því að fara til baka,“ útskýrði hún.

Henríetta var að leika sinn fyrsta leik í efstu deild en hún kom til Stjörnunnar frá HK fyrir tímabilið. Hún er ánægð hjá nýju félagi og ekki skemmdi fyrir mark í fyrsta leik.

„Þetta hefur verið geggjað. Ég er mjög ánægð hérna og er spennt fyrir framhaldinu. Það eru meiri gæði hér og fagmannlegra umhverfi.

Það var geggjað að fá mark í fyrsta leik og vonandi verða þau fleiri. Boltinn datt fyrir mig og ég kláraði vel, upp í þaknetið,“ sagði Henríetta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert