Marija tryggði nýliðunum stig

Þróttarinn Lea Björt Kristjánsdóttir með boltann á Fylkisvellinum í kvöld.
Þróttarinn Lea Björt Kristjánsdóttir með boltann á Fylkisvellinum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þróttarar mættu nýliðum Fylkis í Árbæ í kvöld í skemmtilegum leik sem endaði 1:1 í fyrstu umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu.

Þróttur missti fimm byrjunarliðsleikmenn, aðal- og aðstoðarþjálfara sinn eftir síðasta tímabil og í dag var fyrsti leikur Ólafs Kristjánssonar sem þjálfara liðsins á Íslandsmóti.

Fylkir spilaði fyrsta leik sinn í efstu deild í þrjú ár en liðið lék þar síðast árið 2021.

Fyrri hálfleikur var kaflaskiptur en Þróttarar byrjuðu betur fyrstu tíu mínúturnar og áttu fyrstu færi leiksins en svo dró aðeins úr þeim.

Á 11. mínútu átti Eva Rut Ásþórsdóttir frábært skot sem Mollee Swift varði í þverslána, boltinn skoppaði fyrir aftan hana nánast á marklínunni og svo út í teiginn. Við þetta fengu heimakonur sjálfstraust og héldu vel í boltann nokkurn tíma.

Þróttarar urðu svo fyrir þungu höggi á 17. mínútu  þegar Álfhildur Rósa Kjartansdóttir fór meidd af velli.

Undir lok fyrri hálfleiks tóku Þróttarar svo aftur yfir og á 37. mínútu þá skoruðu þær fyrsta mark leiksins. Það kom eftir flott spil og frábæra fyrirgjöf frá Caroline Murray sem Kristrún Rut Antonsdóttir stangaði í netið.

Seinni hálfleikur var rólegri og það var ekki mikið um góð færi en það besta fyrir gestina kom á 80. mínútu þegar Freyja Karín Þorvarðardóttir átti skot sem fór í varnarmann. Boltinn lenti á fjær þar sem Sierra kom á hlaupum og setti hann í hliðarnetið.

Á 84. mínútu jafnaði Fylkir metin eftir hornspyrnu. Fyrirliði Fylkis, Eva Rut, skallaði boltann niður og Marija Radojicic tók boltann á lofti og hamraði boltanum í netið.

Fylkir 1:1 Þróttur R. opna loka
90. mín. Þróttur R. fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert