Getum unnið öll lið

Haraldur Einar Ásgrímsson fagnar á Framvellinum í dag.
Haraldur Einar Ásgrímsson fagnar á Framvellinum í dag. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Framarinn Haraldur Einar Ásgrímsson var að vonum sáttur eftir sigur sinna manna gegn Fylki, 2:1, í 5. umferð Bestu deildarinnar í knattspyrnu í Úlfarsárdal í kvöld.

Með sigrinum er Fram komið í þriðja sæti deildarinnar með tíu stig.

Haraldur jafnaði metin fyrir Framara með góðri vippu yfir Ólaf Kristófer Helgason, markvörð Fylkis. Framarinn heldur fram að vinnslan hafi skilað sigrinum.

„Við hlupum endalaust fyrir hvor annan. Það skóp þennan sigur. 

Fyrstu fimm til tíu mínúturnar voru góðar en svo duttum við alveg niður og þeir komast yfir. Eftir það mark kviknaði á okkur. 

Þá fórum við í gang, sköpum færi og spilum boltanum hratt. Þá erum við með frábært lið og þegar við erum í þeim gír er erfitt að stöðva okkur,“ sagði Haraldur í samtali við mbl.is. 

Haraldur Einar vippar boltanum yfir Ólaf Kristófer.
Haraldur Einar vippar boltanum yfir Ólaf Kristófer. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Haraldur tjáði sig um markið:

„Ég var kominn alltof nálægt honum. Ég hefði ekki náð að setja boltann fram hjá honum þannig að vippa var eina í stöðunni. 

Að skora í fyrsta leiknum sem ég byrja hér er frábært og að spila hér í fyrsta skipti sem Framari er alveg geðveikt. 

Maður finnur fyrir stemningunni í félaginu. Þá er enn skemmtilegra og meðbyr með öllum.“

Getum unnið öll lið

Eins og áður kom fram fer Framliðið vel af stað og virðist sem svo að Rúnar Kristinsson þjálfari hafi komið með ferskan blæ. 

Næsta verkefni Framara verður í Garðabænum en liðið mætir Stjörnunni í 6. umferðinni.  

„Stjörnuleikurinn leggst mjög vel í mig. Við nýtum æfingarnar þangað til mjög vel til að undirbúa okkur fyrir þann leik.

Ef við höldum í okkar kerfi og látum boltann ganga þá getum við unnið öll lið,“ bætti Haraldur við í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert