Landsliðsmarkvörðurinn Hannes Þór Halldórsson hefur leikið afar vel á EM til þessa. Enskir fjölmiðlar hafa verið duglegir að benda á að Hannes er sannkallaður vítabani, en Englendingum hefur gengið bölvanlega að nýta vítaspyrnur á stórmótum.
Í grein sem birtist á heimasíðu Independent er farið rækilega yfir glæsilegan árangur Hannesar í vítaspyrnum og er ekki laust við að örlítill taugatitringur sé byrjaður að gera vart við sig hjá þeim ensku.
Blaðamaður Independent bendir á þá staðreynd að Hannes sé einn besti markvörður sem völ sé á þegar komi að vítaspyrnum. Máli sínu til stuðnings vitnar enski blaðamaðurinn í grein frá Sandnesposten, þar sem kemur í ljós að síðan 2011 hefur Hannes mætt 24 vítaskyttum en aðeins fengið á sig 10 mörk.
Þessi tölfræði er í raun fáránlega góð. Hannes hefur varið níu spyrnur en fimm sinnum hefur skotið geigað; boltinn annaðhvort farið í tréverkið eða framhjá markinu.
Þetta þýðir að landsliðsmarkvörður Íslands hefur aðeins fengið á sig mark úr vítaspyrnu í 42,7% tilfella undanfarin fimm ár og þessi tölfræði er Englendingum ekki að skapi.