Harðorð yfirlýsing frá Liverpool

Reuters

Liverpool birti rétt í þessu harðorða og langa yfirlýsingu á vef sínum þar sem lýst er yfir mikilli undrun og vonbrigðum með þá ákvörðun aganefndar enska knattspyrnusambandsins að úrskurða Luis Suárez í 8 leikja bann og sekta hann um 40 þúsund pund.

Í upphafi yfirlýsingarinnar segir:

„Við hlökkum til birtingar á niðurstöðu nefndarinnar. Við munum fara rækilega yfir ástæður nefndarinnar um leið og þær verða birtar en áskiljum okkur rétt til að áfrýja eða taka hverja þá ákvörðun sem við teljum viðeigandi í þessu máli.

Okkur finnst það ótrúlegt að Luis geti verið fundinn sekur, eingöngu vegna orða Patrice Evra, þar sem enginn annar á vellinum, þar með taldir allir samherjar Evra í Manchester United og dómarar leiksins, heyrði meint orðaskipti leikmannanna í þétt skipuðum vítateignum þegar verið var að taka hornspyrnu." 

Liverpool kveðst taka mjög hart á kynþáttaníði og segir það óverjandi í hvaða formi sem er. Bent er á að Patrice Evra hafi sjálfur sagt í yfirlýsingu: "Ég tel ekki að Luis Suárez sé kynþáttahatari." Sagt er að Suárez sé sjálfur af blönduðum uppruna, afi hans hafi verið svartur á hörund, hann hafi umgengist og spilað með fjölda svartra leikmanna, og verið fyrirliði í fjölþjóðlegu liði Ajax þar sem hann hafi átt fjölda vina.

Í niðurlagi yfirlýsingarinnar segir:

„Okkur finnst það með ólíkindum að leikmaður af blönduðum uppruna skuli vera ákærður og fundinn sekur, miðað við þau gögn sem liggja fyrir. Við þekkjum ekki Luis Suárez á þeirri mynd sem dregin hefur verið upp af honum.

Okkur virðist sem knattspyrnusambandið hafi verið staðráðið í að kæra Suárez, jafnvel áður en hann var yfirheyrður í byrjun nóvember. Ekkert sem fram hefur komið í málinu hefur breytt þeirri skoðun okkar að hann sé saklaus af þeim ákærum sem bornar hafa verið á hann og við munum styðja Luis á allan þann hátt sem hann þarf til þess að nafn hans verði hreinsað.

Við viljum líka fá að vita hvenær enska knattspyrnusambandið ætlar að kæra Patrice Evra fyrir að nota móðgandi orð í garð mótherja, eftir að hann viðurkenndi sjálfur að hafa móðgað Luis Suárez á mjög afgerandi hátt á spænsku. Það verður að teljast Luis til tekna að hann sagði við enska knattspyrnusambandið að hann hefði ekki heyrt þau ummæli."

Yfirlýsingin á vef Liverpool.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert