Moyes verður rekinn - Tekur Giggs við?

David Moyes virðist ætla að staldra stutt við á Old …
David Moyes virðist ætla að staldra stutt við á Old Trafford. AFP

Allt útlit er fyrir að David Moyes verði sagt upp starfi sínu sem knattspyrnustjóri Manchester United. Eigendur félagsins og stjórnarmenn hafa endanlega misst þolinmæðina gagnvart Skotanum sem hefur gengið afleitlega á fyrsta og væntanlega eina tímabili sínu með liðið.

Þetta er fullyrt í fjölda enskra blaða í dag, þar á meðal Daily Telegraph og Mirror. Í Telegraph segir að 2:0-tapið gegn Everton, gamla liðinu hans Moyes, um helgina hafi verið kornið sem fyllti mælinn endanlega.

Aðeins eru 11 mánuðir liðnir síðan að Moyes tók við af Sir Alex Ferguson og skrifaði undir samning til sex ára. Eftir að hafa látið af störfum síðastliðið vor, þar sem United fagnaði 20. Englandsmeistaratitli sínum, bað Ferguson United-menn alla að sýna nýjum stjóra stuðning og traust, en sá stuðningur hefur farið þverrandi eftir því sem liðið hefur á tímabilið.

Samkvæmt Telegraph verður starfsliðinu sem Moyes fékk til United fyrir tímabilið, í stað þeirra sem störfuðu undir stjórn Fergusons, einnig látið fara.

Verði Moyes látinn fara áður en tímabilið er á enda, eins og útlit er fyrir, er talið að Ryan Giggs stýri United-liðinu í þeim leikjum sem eftir eru. Varanlegur arftaki Moyes hefur hins vegar ekki verið fundinn. Louis van Gaal, Diego Simeone og Jurgen Klopp eru allir nefndir sem hugsanlegir arftakar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert