Valdés samdi við United

Victor Valdés er kominn til Manchester United.
Victor Valdés er kominn til Manchester United. AFP

Victor Valdés, sem hefur varið mark Barcelona um árabil, hefur samþykkt tilboð Manchester United um samning til átján mánaða en hann hefur æft með enska liðinu undanfarna mánuði.

Valdés hætti hjá Barcelona í vor en þá hafði hann fyrr á árinu slitið krossband í hné. Hann fékk að æfa með Manchester United til að koma sér í gang á ný og það leiddi til þess að honum var boðinn samningur.

Valdés er 32 ára og varð sex sinnum Spánarmeistari og þrisvar Evrópumeistari með Barcelona. Hann lék samtals 387 deildaleiki með liðinu á tólf árum en hafði verið í röðum félagsins frá 13 ára aldri og kom upp í gegnum hina frægu La Masia akademíu Barcelona.

Þá var hann lengi í landsliðshópi Spánverja en lengst af sem þriðji markvörður á eftir Iker Casillas og Pepe Reina. Hann á 20 landsleiki að baki.

Hjá Manchester United verður hann væntanlega til vara fyrir landa sinn, David de Gea, en koma Spánverjans til félagsins þýðir væntanlega að Daninn Anders Lindegaard hverfur á braut.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert