Sturridge skoraði í endurkomunni

Liverpool kom sér upp fyrir West Ham í 7. sæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu með 2:0-sigri í leik liðanna á Anfield. Daniel Sturridge skoraði í sínum fyrsta leik fyrir Liverpool síðan í ágúst. Sex leikjum var að ljúka.

Sturridge kom inná sem varamaður á 68. mínútu en þá hafði Raheem Sterling komið Liverpool í 1:0 með laglegu marki. Sturridge skoraði svo á 80. mínútu með föstu skoti eftir sendingu frá Philippe Coutinho, við gríðarmikinn fögnuð stuðningsmanna á Anfield sem höfðu klappað dyggilega fyrir honum þegar hann kom inná.

Manchester United vann þægilegan sigur á Leicester, 3:1, eftir að hafa komist í 3:0 í fyrri hálfleik. Robin van Persie kom United yfir og Falcao bætti við draumamarki, en þriðja markið var sjálfsmark.

Tottenham er í 5. sæti deildarinnar eftir öruggan 3:0-sigur á West Brom þar sem Harry Kane skoraði tvö mörk og Christian Eriksen eitt.

Sunderland vann Burnley 2:0, Stoke lagði QPR 3:1 og Everton vann Crystal Palace, 1:0, á útivelli.

Fylgst var með gangi mála í leikjunum í ENSKA BOLTANUM Í BEINNI.

Staðan: Chelsea 52, Man. City 47, Man. Utd 43, Southampton 42, Tottenham 40, Arsenal 39, Liverpool 38, West Ham 36, Stoke 32, Swansea 30, Newcastle 30, Everton 26, Crystal Palace 23, Sunderland 23, WBA 22, Aston Villa 22, Burnley 20, Hull 19, QPR 19, Leicester 17.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert