Mourinho hefur ekki sömu áhrif og Ferguson

Jose Mourinho er að reyna að taka við af Ferguson …
Jose Mourinho er að reyna að taka við af Ferguson samkvæmt Paul Scholes. AFP

Paul Scholes, fyrrum leikmaður Manchester United, segir að Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, sé ekki jafn áhrifamikill og Sir Alex Ferguson var á tíma sínum sem stjóri United. Scholes segir dómarana á Englandi ekki jafn áþjáða í að gera vel við Mourinho eins og oft var talað um í sambandi við Ferguson.

Mourinho hefur þegar verið sektaður á tímabilinu fyrir að saka dómarastéttina um að vera í aðför gegn Chelsea. Áfram hélt gagnrýni hans svo eftir 1:1 jafnteflið við Burnley um liðna helgi þar sem hann lét fjölmiðla einnig fá á baukinn.

Ferguson hefur þegar viðurkennt að hafa vísvitandi sett pressu á dómara þegar mikið lá við, en Scholes segir að þrátt fyrir að Mourinho hafi reynt, hafi hann ekki sömu áhrif og Ferguson.

„Þar sem sigursælasti stjóri úrvalsdeildarinnar er hættur kemur það ekki á óvart að Jose Mourinho sé að reyna sitt besta að koma í hans stað með því að reyna að hafa áhrif á yfirvöldin, hvort sem um er að ræða dómara eða knattspyrnusambandið. Vandamálið hans er að það einfaldlega er ekki að virka, sama hvað hann reynir,“ skrifaði Scholes í pistli í Independent.

„Dómarar vilja ekki þóknast honum sérstaklega. Ég er ekki að segja að þeir séu á móti honum, en hann hefur ekki sömu áhrif og Ferguson sem var snillingur á þessu sviði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert