Gylfi skoraði á gamla vellinum - óbreytt á toppnum

Sex leikjum var að ljúka í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu þar sem Gylfi Þór Sigurðsson var meðal annars á skotskónum. Fylgst var með gangi mála í ENSKA BOLT­AN­UM Í BEINNI hér á mbl.is.

Ekki varð breyting á toppliðunum tveimur. Chelsea er enn í efsta sætinu og heldur fimm stiga forskoti eftir útisigur á West Ham í Lundúnaslag, 1:0, þar sem Eden Hazard skoraði um miðjan fyrri hálfleikinn.

Englandsmeistarar Manchester City lentu í vandræðum með nýliða Leicester. Gamla kempan Mark Schwarzer varði eins og berserkur í marki nýliðanna, en David Silva kom meisturunum yfir undir lok fyrri hálfleiks. Riyad Mahrez skaut í slá City-marksins í síðari hálfleik en það var James Milner sem innsiglaði sigur City undir lokin. Chelsea hefur enn fimm stiga forystu.

Manchester United fór norður í land og mætti Newcastle. Bæði lið fengu fullt af fínum færum sem fóru í súginn, og virtist stefna í markalaust jafntefli. Tveimur mínútum fyrir leikslok gerði Tim Krul í marki Newcastle sig hins vegar sekan um skelfileg mistök þar sem hann rétti Ashley Young boltann á silfurfati og hann skoraði nánast í tómt markið. Það reyndist eina mark leiksins, og United tryggði því stöðu sína í fjórða sætinu og er stigi á eftir Arsenal.

Það tók Arsenal rúmlega klukkutíma að brjóta ísinn gegn nýliðum QPR í grannaslag, en eftir að Oliver Giroud kom þeim yfir var ekki aftur snúið. Alexis Sánchez bætti við marki skömmu síðar áður en Charlie Austin minnkaði muninn, lokatölur 2:1. Arsenal er enn í þriðja sætinu, nú með 54 stig.

Gylfi allt í öllu á sínum gamla heimavelli

Gylfi Þór Sigurðsson sneri aftur í lið Swansea og var í stóru hlutverki þegar hann mætti á sinn gamla heimavöll hjá Tottenham. Gylfi átti þátt í fyrra marki Swansea sem Sung-Yueng Ki skoraði og jafnaði metin, eftir að skot Gylfa úr aukaspyrnu small í stönginni. Nacer Chadli, Ryan Mason og Andros Townsend skoruðu mörk Tottenham og allt virtist stefna í þægilegan sigur.

En tveimur mínútum fyrir leikslok minnkaði Gylfi muninn gegn sínum gömlu félögum með skoti úr teignum, en þar við sat. Lokatölur 3:2 og Tottenham er í sjöunda sætinu en Gylfi og félagar eru í því níunda.

Þá vann Stoke sterkan heimasigur á Everton, 2:0, þar sem Victor Moses og Mame Biram Diouf skoruðu mörkin í sitt hvorum hálfleiknum.

Skoða má beinu lýsinguna í ENSKA BOLT­AN­UM Í BEINNI hér á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert