Pearson rekinn frá Leicester

Nigel Pearson.
Nigel Pearson. AFP

Óvænt tíðindi bárust úr herbúðum enska úrvalsdeildarfélagsins Leicester nú undir kvöld en félagið hefur rekið knattspyrnustjórann Nigel Pearson.

Pearson náði að halda Leicester í úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð og gott betur en liðið hafnaði í 14. sæti. Það náði í 22 stig af 30 mögulegum í síðustu tíu leikjum tímabilsins og því virðist ljóst að árangur síðasta vetrar hafði ekkert með brottreksturinn að gera.

Í tilkynningu Leicester segir að sambandið á milli stjórnar og Pearsons hafi verið komið á endastöð.

Í júní var James, sonur Pearson, rekinn frá Leicester ásamt tveimur öðrum leikmönnum vegna kynlífsmyndbands sem birtist eftir ferð liðsins til Tælands. Á myndbandinu sáust leikmennirnir taka þátt í hópkynlífi ásamt því að beita tælenska stúlku kynþáttaníði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert