Engin örvæntingarkaup hjá United

Louis van Gaal var ekki skemmt eftir að hafa horft …
Louis van Gaal var ekki skemmt eftir að hafa horft upp á sína menn tapa gegn Gylfa Þór Sigurðssyni og félögum í Swansea í dag. AFP

Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að félagið muni ekki grípa til neinna örþrifaráða til að næla í framherja áður en lokað verður fyrir félagaskipti í Englandi á þriðjudagskvöld.

Van Gaal var spurður að því eftir tapið gegn Swansea í dag hvort hann væri sáttur við leikmannahóp sinn eins og hann væri í dag, eða hvort hann teldi nauðsynlegt að bæta við leikmanni:

„Maður getur aldrei þóst vera fullkomlega sáttur þegar maður er hjá félagi eins og Manchester United. En við munum ekki kaupa leikmann núna sem við höfum ekki skoðað vandlega. Við vitum fyrir fram hvað gæti gerst og hvað mun ekki gerast. Við verðum að halda áfram og í janúar opnast glugginn aftur. Þetta er ferli og ég get ekki breytt því,“ sagði van Gaal.

„Þetta er ekki bara í höndunum á leikmanninum sjálfum heldur veltur þetta líka á félaginu hans og því hvað maður er tilbúinn að borga. Það spilar margt inn í sem maður ræður ekki við,“ bætti hann við. Aðspurður um framtíð markvarðarins David de Gea, sem Real Madrid vill fá til sín og hefur ekkert spilað í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni, sagði stjórinn:

„Við verðum að sjá til hvað gerist en ég vil ekki skipta mér af því. Við skiptum með okkur hlutverkum hjá félaginu og þetta er í höndum Ed Woodward,“ sagði Hollendingurinn, en lokað verður fyrir félagaskipti á Spáni á miðnætti annað kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert