Er með tilboð frá Englandi

Zlatan Ibrahimovic á æfingu sænska landsliðsins.
Zlatan Ibrahimovic á æfingu sænska landsliðsins. AFP

Sænski knattspyrnumaðurinn Zlatan Ibrahimovic staðfesti rétt í þessu að hann væri með í höndunum tilboð frá enskum úrvalsdeildarfélögum, á blaðamannafundi sem hann boðað til sjálfur eftir æfingu sænska landsliðsins í morgun.

Hann staðfesti hins vegar ekkert um hvort hann hefði fengið tilboð frá Manchester United, eins og mikið hefur verið fjallað um síðustu daga. „Sjáum til hvað gerist," svaraði hann spurningum um það, en sagði að José Mourinho væri maðurinn til að koma United aftur á toppinn.

„Hann er sá sem getur komið United aftur á toppinn. Ég átti frábært samstarf með honum og talaði við hann daglega eftir að ég fór frá Inter. Ég veit hins vegar ekki hvort við eigum eftir að vinna saman á ný," sagði Zlatan.

„Ég er með tilboð frá enskum úrvalsdeildarliðum en það er ekkert fast í hendi," svaraði hann spurningum um meinta Englandsför, en hann er á förum frá París SG.

Spurður hvort aldur hans væri vandamál svaraði Svíinn: „Ég er bara að hita upp og er þegar búinn að sanna að aldur er bara tala á blaði. Þetta er allt í höfðinu á þér. Ef ég ætla mér að gera eitthvað þá geri ég það."

Zlatan er 34 ára gamall og hefur spilað með París SG undanfarin fjögur ár sem er hans lengsta dvöl hjá félagi á ferlinum. Hann spilaði áður með AC Milan, Barcelona, Inter Mílanó, Juventus, Ajax og Malmö og hefur gert 62 mörk í 112 landsleikjum fyrir Svía.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert