Pogba spenntari fyrir Real Madrid

Paul Pogba er eftirsóttur.
Paul Pogba er eftirsóttur. AFP

Franski miðvallarleikmaðurinn Paul Pogba vill frekar fara til Real Madrid en Manchester United en það er spænski miðillinn Cadena SER sem greinir frá þessu í dag.

Pogba, sem er samningsbundinn Juventus, er líklega á leið frá félaginu í sumar en hann er metinn á 100 milljónir punda.

José Mourinho, knattspyrnustjóri United, er ákveðinn í að fá Pogba til félagsins, en hann lék með liðinu frá 2009 til 2012. Pogba hefur þó meiri áhuga á að ganga til liðs við Real Madrid samkvæmt spænska miðlinum Cadena SER.

Því er einnig haldið fram að það sé Mino Raiola, umboðsmaður Pogba, sem vill að hann fari til United, en enska félagið er reiðubúið að greiða honum hærri laun fyrir að koma félagaskiptunum í gegn.

Real Madrid reynir nú að losa sig við kólumbíska miðjumanninn James Rodriguez til þess að fjármagna kaupin á Pogba en næsti áfangastaður franska leikmannsins kemur í ljós á allra næstu vikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert