Zlatan hefur nú þegar haft mikil áhrif

Zlatan Ibrahimovic og José Mourinho voru hér andstæðingar, en eru …
Zlatan Ibrahimovic og José Mourinho voru hér andstæðingar, en eru nú samherjar. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að sænski framherjinn Zlatan Ibrahimovic hafi þrátt fyrir skamma dvöl sína hjá félaginu strax haft mikil áhrif í leikmannhópi félagsins.

Zlatan mun að öllum líkindum leika sinn fyrsta leik fyrir Manchester United þegar liðið mætir Galatasaray í æfingaleik í Gautaborg í kvöld.

„Zlatan er með mikið sjálfstraust og hefur mikla trú á eigin hæfileikum á jákvæðan hátt. Hann er góður leikmaður í hópi þar sem hann er vinsamlegur við samherja sína og samskipti hans við þá sem spila með honum eru góð,“ sagði Mourinho í samtali við sjónvarpsstöð Manchester United.

„Zlatan er frábær leikmaður og við finnum það strax á þeim æfingum sem hann hefur tekið þátt í að hann tengir vel við leikmenn liðsins. Hann er mjög góður í að halda boltanum, koma öðrum leikmönnum inn í leikinn og er auk þess fæddur markaskorari,“ sagði Mourinho enn fremur um sænska framherjann í viðtalinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert