Íhuga að framlengja við Mourinho

José Mourinho er oftast mjög alvarlegur á hliðarlínunni hjá Manchester …
José Mourinho er oftast mjög alvarlegur á hliðarlínunni hjá Manchester United. AFP

Forráðamenn Manchester United íhuga að framlengja samning félagsins við knattspyrnustjórann José Mourinho og Portúgalinn er sjálfur hrifinn af hugmyndinni.

Frá þessu greinir The Guardian í dag. Mourinho tók við United af Louis van Gaal í sumar og skrifaði undir samning til þriggja ára. Forráðamenn United eru samkvæmt breska blaðinu mjög ánægðir með byrjunina hjá Mourinho í starfi, og þau áhrif sem hann hefur haft innan sem utan vallar.

United hefur ekki tapað neinum af síðustu 10 leikjum sínum, og unnið sjö þeirra, þar af þrjá síðustu í ensku úrvalsdeildinni. Mourinho er einnig sagður hafa haft jákvæð áhrif á æfingasvæðinu, þar sem hann sé oft léttur í bragði og tilbúinn að grínast við leikmenn. Einhver óánægja er hins vegar hjá forráðamönnum United með það að Mourinho hafi á tíðum í vetur komið fólki fyrir sjónir sem fúll og óánægður stjóri.

Þó að The Guardian segi báða aðila áhugasama um að nýr samningur verði gerður tekur blaðið fram að framtíð Mourinho hjá United velti ekki aðeins á úrslitum heldur einnig leikstíl liðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert