Endurkomusigur United í sex marka leik

Bruno Fernandes fagnar öðru marki sínu og þriðja marki United.
Bruno Fernandes fagnar öðru marki sínu og þriðja marki United. AFP/Oli Scarf

Manchester United lenti í vandræðum gegn botnliði Sheffield United er liðin mættust í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta á Old Trafford í Manchester í kvöld.

Sheffield United komst tvívegis yfir í leiknum, en United skoraði þrjú síðustu mörkin og vann að lokum 4:2-sigur.

Jayden Bogle kom Sheffield-liðinu yfir á 35. mínútu en Harry Maguire jafnaði á 42. mínútu og var staðan í hálfleik 1:1. Ben Brereton Díaz kom gestunum aftur yfir á 50. mínútu, en Bruno Fernandes jafnaði á 61. mínútu með marki úr víti.

Fernandes var aftur á ferðinni á 81. mínútu með þriðja mark United og Rasmus Höjlund gerði fjórða og síðasta markið á 85. mínútu. United er í sjötta sæti með 53 stig. Sheffield United er í botnsætinu með 16 stig og nánast fallið.

Í London vann Crystal Palace sterkan heimasigur á Newcastle, 2:0. Franski framherjinn Jean-Philippe Mateta gerði bæði mörk Palace. Það fyrra á 55. mínútu og það seinna á 88. mínútu.

Þá vann Bournemouth 1:0-útisigur á Wolves. Antoine Semenyo gerði sigurmarkið á 37. mínútu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka