Vettel: Pallsæti umfram væntingar

Daniel Ricciardo (t.h.) og Sebastian Vettel í návígi árla í …
Daniel Ricciardo (t.h.) og Sebastian Vettel í návígi árla í kappakstrinum í Sepang í morgun. mbl.is/afp

Heimsmeistarinn Sebastian Vettel segir að það hafi verið umfram væntingar Red Bull liðsins að hann skyldi keppa um sæti á verðlaunapalli í Sepang í dag.

Vettel hóf keppni í öðru sæti en missti Nico Rosberg hjá Mercedes og liðsfélaga sinn Daniel Ricciardo fram úr á leið inn að fyrstu beygju. Hann vann sig fljótt aftur fram úr Ricciardo en réði ekki við Rosberg.

„Já, það er svo,“ svaraði hann spurningu hvort úrslitin hafi verið umfram væntingar liðsins. „Munið bara hvar við stóðum fyrir hálfum öðrum mánuði. Það sem máli skiptir er hvað við höfum áunnið síðan, meiri háttar verk af hálfu liðsins og Renault. Báðir aðilar hafa lagt sig alla fram og unnið af eldmóð að bæta úr vandanum.“

Vettel játar að Mercedes sé nú með undirtökin er liðið er með 53 stiga forskot á Red Bull í  heimsmeistarakeppni bílsmiða en síðarnefnda liðið er í sjötta sæti. En hann kveðst vongóður um að sínir menn eigi eftir að klóra í bakkann og brúa bilið.

„Mercedes er enn talsvert á undan og hefur úr nógu að moða til að svara. Það er undir okkur komið hversu fljótir við verðum að blanda okkur í toppslaginn. Sem stendur virðumst við vera að taka stærri framfaraskref en þeir og ég vona að áframhald verði á þeirri þróun. Við munum reyna að komast upp að hlið þeirra sem allra fyrst,“ segir Vettel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert