„Vissulega er þetta fúlt“

Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki með Hoffenheim.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki með Hoffenheim. Reuters

„Vissulega er þetta fúlt. Ég bjóst svo sannarlega við því að vera í byrjunarliðinu á móti Köln en því miður var svo ekki. En svona er stundum í boltanum,“ sagði landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður þýska liðsins Hoffenheim, við Morgunblaðið í gær.

Gylfi er markahæsti leikmaður liðsins á tímabilinu, hefur skorað 7 mörk í deildinni en hefur þó aðeins verið í byrjunarliðinu í 5 af þeim 18 leikjum sem hann hefur spilað með liðinu. Hann skoraði fyrsta markið í 3:2 sigri á Kaiserslautern í byrjun mánaðarins en var síðan settur á bekkinn fyrir leikinn á móti Bayern München þar sem Hoffenheim steinlá, 4:0. Hann lék síðasta stundarfjórðunginn í þeim leik og síðustu þrjár mínúturnar um liðna helgi þegar Hoffenheim gerði 1:1 jafntefli við Köln.

„Ég ætla að spjalla við þjálfarann á morgun (í dag) og fá að vita hvað hann segir um mína stöðu. Ég hef lítið fengið að spila að undanförnu. Í þeim leikjum sem ég hef fengið tækifæri í byrjunarliðinu hef ég staðið mig vel en það virðist ekki duga til,“ sagði Gylfi Þór.

Þýðir ekkert annað en að halda áfram og berjast fyrir sæti sínu

Gylfi, sem er 21 árs gamall, gekk til liðs við Hoffenheim frá enska liðinu Reading síðastliðið sumar. Hoffenheim greiddi rúman einn milljarð króna fyrir Gylfa og gerði við hann fjögurra ára samning.

Óvænt þjálfaraskipti urðu hjá félaginu í byrjun árs þegar Ralf Rangnick sagði upp þar sem hann var mjög ósáttur með að vera ekki með í ráðum þegar Hoffenheim seldi Brasilíumanninn Luiz Gustavo til Bayern München. Aðstoðarmaður Rangnicks, Marco Pezzaiuoli, tók við starfinu.

„Nýi þjálfarinn hefur ekki breytt miklu. Hann hefur látið liðið spila svipaða leikaðferð og æfingarnar eru svipaðar. Ég hef ekki fengið neina skýringu hjá honum á því af hverju ég fæ ekki að spila meira. Ég er alveg heill og æfi bara meira þar sem ég er lítið að spila. Ef þetta gengur ekki upp hérna þá gerist það bara annars staðar. Ég vil ekki sitja endalaust á bekknum en það þýðir ekkert annað en að halda áfram og berjast fyrir sínu sæti í liðinu,“ sagði Gylfi Þór.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka